Ávöxtunarkrafan á bandarísk ríkisskuldabréf til tíu ára fór yfir 3% í gær. Þetta er í fyrsta sinn í þrjú ár sem krafan fer svo hátt. Þrátt fyrir að krafan á tí ára bréfin hafi síðan lækkað telja flestir sérfræðingar einsýnt að hún eigi eftir að hækka enn frekar á næstunni á sama tíma og bandaríski seðlabankinn hækkar vexti og takmarkar aðgengi að lausafé til að berjast gegn ört hækkandi verðbólgu.

Krafan á bandarísk ríkisskuldabréf hefur hækkað ört að undanförnu eftir að hafa verið sögulega lág undanfarin ár meðan að seðlabankinn vestanhafs beitti aðhaldslítilli peningamálastefnu og magnbundinni íhlutun til að stemma stigu gegn áhrifum heimsfaraldursins á efnahagslífið.

Krafan á tíu ára bréfin hefur nú tvöfaldast frá ársbyrjun. Á sama tíma hefur verðbólga aukist hratt og mælist nú um 8,5% og hefur ekki verið hærri í fjóra áratugi. Verðbólgan og óvissa í alþjóðahagkerfinu hefur jafnframt grafið undan hagvexti í Bandaríkjunum en hann dróst saman um 1,4% á fyrsta fjórðungi ársins.

Að sögn Financial Times búast sérfræðingar á fjármálamarkaði að bandaríski seðlabankinn tilkynni um frekari vaxtahækkun að loknum fundarhöldum forráðamanna bankans á morgun, miðvikudag. Blaðið segir að flestir búist við 50 punkta hækkun og bendir á að markaðurinn með framvirka samninga hafi nú þegar verðlagt 100 punkta hækkun til viðbótar á komandi mánuðum.