Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir ummæli Dags B. Eggertssonar, sem kenndi skorti á krönum um seinagang í uppbyggingu húsnæðis í borginni, vera af og frá og ekki standast skoðun. að því er Morgunblaðið segir frá.

Hafði Dagur haldið því fram í kvöldfréttum RÚV að ef ekki væri fyrir skort á krönum og öðru væri hægt að tvöfalda kraftinn í uppbyggingunni. „Í sam­töl­um okk­ar við verk­taka kem­ur í ljós að þau um­mæli borg­ar­stjóra að það vanti krana og mann­skap til að byggja meira stand­ast ekki skoðun,“ segir Sigurður.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata í borginni vísaði í ummælum sínum einnig á skort á starfsfólki.

„Áhyggjur okkar lúta meira að því að það sé ekki nógu mikið af stórum og öflugum verktökum til að takast á við öll þessi verkefni,“ sagði Dagur en eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá þakkar hann því að öfluga verktaka þurfi til að vinna á þéttingarreitum að uppbygging þar gengur hraðar en í úthverfum.

Umtalsverð aukning eftirspurnar eftir lægri krönum fyrir nýbyggingar utan höfuborgarsvæðisins

Stjórnendur fyrirtækja sem bæði leigja út og selja byggingarkrana taka ekki undir með borgarstjóra um að skortur á krönum sé takmarkandi þáttur heldur þvert á móti sé það skortur á lóðum, sérstaklega á nýbyggingarsvæðum.

„Kranar eru ekki flöskuhálsinn, það er alveg ljóst,“ sagði einn stjórnendanna sem segir fyrirtækin fylgjast með þróun markaðarins í því hversu margir kranar komi til landsins. Segir einn stjórnendanna að lítil eftirspurn sé eftir stóru krönunum sem þurfi til í þéttingarreitina og framboðið svalaði alveg eftirspurninni eftir þeim.

„Þessi stóru verkefni eru tiltölulega nýtilkomin,“ segir hann og bendir á að umtalsverð aukning hefði verið á hefðbundnum byggingarkrönum úti á landi, sérstaklega á Suðurlandi, en ekki væri að merkja mikla aukningu á höfuðborgarsvæðinu. „Markaðurinn hér hefur snúist um að byggja lægri hús.“

Einn stjórnendanna benti á að kranar væru fluttir inn eftir þörf en ekki til að eiga á lager til skemmtunar. „Þetta eru dýr tæki," segir hann. „Það er nóg til af bygg­ingarkrönum og ef það vantar krana er enginn vandi að fá fleiri. Það sem vantar er nóg af lóðum til að byggja og helst á nýbyggingarsvæðum.“