Qatar Airways mun skikka farþega sína til þess að vera með andlitshlíf og andlitsgrímu til þess að reyna hefta útbreiðslu COVID-19. Reglurnar munu ekki gilda um þá sem ferðast í viðskiptafarrými.

Hingað til hafa flugfélög einungis kveðið á um að farþegar beri andlitshlíf en hefur Qatar Airways ákveðið að fara enn lengra. Ásamt því að fá andlitsgrímu og andlitshlíf munu farþegar fá handspritt og hanska. Business Insider greinir frá.

Þeir sem kaupa sér miða í viðskiptafarrými þurfa hvorki að vera með andlitsgrímu né andlitshlíf. Í tilkynningu frá félaginu er ástæðan sú að þeir sem eru í viðskiptafarrými fá meira næði og því væntanlega ólíklegri til þess að smita. Mögulegt er að um sé að ræða leið til verðaðgreiningar.

Félagið er að fullu í eigu katarska ríkisins.