Fyrstu úthlutun úr opinbera sprota- og nýsköpunarsjóðnum Kríu, sem ætlað er að fjárfesta í íslenskum vísisjóðum, lauk í vikunni. Þrír af fimm sérhæfðum vísisjóðum á Íslandi sóttu um fjárfestingu og fengu þeir allir úthlutun.

Kría mun fjárfesta samtals fyrir rúmlega 2,2 milljarða í Crowberry II, Eyri Vexti og Frumtaki. Þar af verður fjárfest fyrir 810 milljónir króna í Crowberry II og Frumtaki 3 og 620 milljónir króna í Eyri Vexti. Brunnur Ventures og Iðunn, sjóður í stýringu Kviku, sóttu ekki um fjárfestingu. Vísisjóðirnir þrír sem hlutu styrk voru allir stofnaðir og fjármagnaðir á þessu ári. Eyrir Vöxtur er sex milljarða króna sjóður í umsýslu Eyrir Venture Management, Frumtak 3 er sjö milljarða króna sjóður í umsýslu Frumtak Ventures og Crowberry II er 11,5 milljarða króna sjóður í umsýslu Crowberry Capital.

Pétur Richter, fjárfestingastjóri hjá Iðunni, segir sjóðinn ekki hafa getað sótt um fjárfestingu frá Kríu þar sem úthlutun hafi dregist fram yfir lokun sjóðsins.

Sigurður Arnljótsson, fjárfestingastjóri hjá Brunni Ventures, segir ekki hafa verið þörf á auknu fjármagni á þessum tíma og að ánægja ríki með stærð sjóðsins og núverandi hluthafahóp.