Einkahlutafélög glæpasagnahöfundanna Arnaldar Indriðasonar og Yrsu Sigurðardóttur skiluðu bæði jákvæðri afkomu í fyrra þótt eilitlar sveiflur hafi verið í rekstrinum.

Rekstrartekjur Gilhaga, félags Arnaldar, námu 99 milljónum og jukust um rúman þriðjung frá fyrra ári. EBITDA var jákvæð um 86 milljónir en fjármagnsgjöld neikvæð 45 milljónir. Gengismunur var að vísu jákvæður, 34 milljónir, en 80,5 milljóna tap varð á verðbréfasafni félagsins. Eignir félagsins voru metnar á 946 milljónir í árslok 2020 og er eigið fé jákvætt um 934 milljónir tæpar.

Tekjur Yrsu Sigurðardóttur ehf. námu tæpum 45 milljónum og drógust saman um tæpan fimmtung. Gjöld drógust saman um 400 þúsund og námu 17,8 milljónum. Endanleg afkoma var því 21 milljóna hagnaður samanborið við tæpar 29 milljónir árið 2019. Eignir nema 74,5 milljónum og er eigið fé jákvætt um 32,5 milljónir.

Útgreiddur arður til Yrsu á síðasta ári nam 25 milljónum og verður sama fjárhæð greidd út í ár. Upplýsingar um arðgreiðslur Gilhaga koma ekki fram í ársreikningi félagsins.