Fjölmiðlamaðurinn Kristinn Hrafnsson hefur tekið við starfi ritstjóra WikiLeaks af Julian Assange, stofnanda samtakanna, samkvæmt frétt Fox news .

Kristinn segist fordæma meðferð Assange, sem leitt hafi til þess að hann tekur þetta hlutverk að sér. Hann taki tækifærinu til að tryggja áframhaldandi starfsemi samtakanna hinsvegar fagnandi.

Assange stofnaði samtökin árið 2006, en sama ár var grunnurinn lagður að stofnun heimasíðu þeirra hér á landi. Hann hefur hinsvegar haldið til í Ekvadorska sendiráðinu í Lundúnum síðustu 6 ár, eftir að hafa flúið þangað og sótt um hæli þegar gefin var út á hendur honum handtökuskipun í Svíþjóð vegna ásakana um kynferðisbrot.

Fari hann fyrir dóm í Svíþjóð telja margir að næsta skref yrði framsal til Bandaríkjanna, en þar ætti hann yfir höfði sér þungan dóm vegna birtingar trúnaðargagna.

Nýkjörinn forseti Ekvador, Lenín Moreno, lokaði fyrir samskipti Assange við umheiminn í mars, og hann hefur því ekki getað sinnt störfum fyrir samtökin. Assange hefur haft ýmis starfsheiti í gegnum árin, meðal annars talsmaður samtakanna, útgefandi, og ritstjóri.