Kríta er nýtt fjármögnunarfyrirtæki sem leggur áherslu á að nýta tæknilausnir til að fjármagna fyrirtæki. Það eru aðeins örfair dagar síðan fyrirtækið hóf starfsemi og að sögn Sigurðar Freys Magnússonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins hefur undirbúningurinn fyrir formlega opnun gengið mjög vel.

„Segja má að fyrirtækið spretti upp úr hinni svokölluðu fjártæknibyltingunni sem er að ganga yfir,“ segir Sigurður Freyr Magnússon, framkvæmdastjóri Kríta.
„Viðskiptavinir okkar sækja um í gegnum vefinn og fá í kjölfarið rafrænan aðgang þar sem þeir geta séð reikninga sem þeir hafa gefið út.“

Kríta býður upp á skammtímafjármögnun fyrir lítil- og meðalstór fyrirtæki. Fyrirtækið leggur áherslu á samkeppnishæf kjör, hraða og skilvirkni í fjármögnunarferlinu og nýjustu tæknilausnir en umsóknarferlið fyrir fjármögnun er að fullu rafrænt.

„Fjármögnun reikninga hjá okkur gefur fyrirtækjum möguleika á að veita viðskiptavinum sínum lengri greiðslufrest án neikvæðra áhrifa á lausafjárstöðu fyrirtækjanna sjálfra,“ segir Freyr.
„Við stefnum á að fara af stað með auglýsingaherferð á næstunni til að koma fyrirtækinu á framfæri.“

Aðspurður hvort fyrirtækið stefni á að bjóða upp á víðtækari þjónustu þegar fram líða stundir segir Freyr að fyrirtækið ætli um sinn að einblína á fjarmögnun reikninga.
„En við erum fjártæknifyrirtæki með innviði til að bjóða upp á fleiri vörur þegar fram líða stundir og það liggur beint við að við munum líklega þróa nýjar vörur, en það er kannski ekki tímabært að ræða það núna heldur ætlum við að einblína á að veita góða þjónustu fyrir þá vöru sem við bjóðum upp á núna.“

Freyr segist líta björtum augum til framtíðar og segist vera viss um að þjónusta fyrirtækisins muni gagnast mörgum.
„Við teljum klárlega að það sé mikil þörf fyrir þessa vöru á markaðnum.“