Ávöxtunarkrafa bandarískra ríkisskuldabréfa er og hefur verið í langan tíma hærri en krafa sambærilegra bréfa í Þýskalandi og Bretlandi. Þann 5. júlí síðastliðinn var krafa 10 ára bréfanna 2,33% í Bandaríkjunum en krafa þýsku og bresku bréfanna var 0,47% og 1,26%. Krafa bandarískra bréfa hefur lækkað á árinu en krafa þýskra bréfa hefur hækkað og krafa breskra helst nokkuð stöðug. Þetta er meðal þess sem kemur fram Í Hagsjá Landsbankans um samspil vaxta og gengis gjaldmiðla. Þá segir að dregið hefur verulega úr kröfumuninum, bandarískum bréfum í óhag, og gengi Bandaríkjadals hefur lækkað gagnvart bæði evru og pundi.

Í greiningunni segir að kröfumunur (e. yield spread) á skuldabréfum ríkja sé einn af helstu drifkröftum á gjaldeyrismarkaði, þar sem krafa á skuldabréfamarkaði tekur mið af vöxtum, vísar kröfumunur líka til vaxtamunar milli gjaldmiðla og landa. „Iðulega er nokkuð sterkt samband á milli kröfumunar og gengis og hægt er að nota muninn á ávöxtunarkröfu skuldabréfa tveggja ríkja sem vísbendingu um þróun gengis viðskomandi gjaldmiðlapars,“ segir í greiningu Hagfræðideildar Landsbankans. Algengt er að breytingar í kröfumuninum leiða til gegnishreyfinga gjaldmiðla.

Samspil vaxta og gengis

Hagfræðideildin bendir á að til að skilja sambandið milli kröfunnar og gengis gjaldmiðlapara er mikilvægt að skoða betur samspil vaxta og gengis. Peningamálastefna og stýrivextir geta skýrt gengi gjaldmiðla að sögn Hagfræðideildarinnar. „Almennt gildir að hærri vextir styðja við gengi viðkomandi gjaldmiðls en lægri vextir veikja gjaldmiðilinn, þ.e. í samanburði við aðra gjaldmiðla,“ segir í Hagsjánni.

Gengi gjaldmiðla getur jafnframt haft áhrif á peningamálastefnu seðlabanka. Sterkt gengi gjaldmiðils hjálpar til að halda verðbólgu niðri á meðan veikt gengi á þátt í að auka verðbólgu. Þannig geta seðlabankar nýtt sér þetta samband með virkum hætti við stýringu peningamála.

Seðlabankar erlendis geta enn fremur keypt og selt skuldabréf til að ná æskilegu vaxtastigi. Þeir þurfa að selja skuldabréf til að hækka vexti. Það eykur framboð á bréfum á markaði og lækkar þar með verð þeirra. „Sala á skuldabréfum dregur líka úr peningamagni í umferð í hagkerfinu. Í þeim skilningi verður hver eining meira virði sem styrkir gengi viðkomandi gjaldmiðils,“ segir í greiningunni.