Nýlega lauk skiptum á þrotabúi Hafhúsa ehf. sem stóðu að byggingu um 40 íbúða við Norðurbakka 1-3 í Hafnarfirði, auk sem það átti fjölda raðhúsa og lóða við Byggakur í Arnarneslandinu í Garðabæ. Miklar tafir urðu á skiptum og þurfti Hæstiréttur að úrskurða um gjaldþrot félagsins.

Hafhús hétu áður Athús og heyrði það undir verktakafyrirtækið Atafl, sem áður hétu Keflavíkurverktakar en það var úrskurðað gjaldþrota árið 2010. Veðkröfur í Hafhús námu alls 3,2 milljörðum króna, en upp í þær fengust 1,2 milljarður, eða um 38,78% allra veðkrafna. Jón Auðunn Jónsson, skiptastjóri Hafhúsa, sá um að selja eignirnar.

Selt á einn milljarð

,,Mér gekk ágætlega að selja þetta,“ segir Jón Auðunn en félagið FM hús keypti eignirnar þegar málið var loksins komið úr dómskerfinu.

,,Þetta var selt í einum pakka á milljarð, en íbúðirnar voru flestar rétt að slaufa frá því að vera fokheldar og upp úr en sú kvöð hvíldi á kaupandanum að ljúka frágangi sameignar.“

Við fall Kaupþings skuldaði félagið bankanum 2,7 milljarða króna, en bankinn fór fram á að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta í apríl 2012.

Gjaldþrotaskiptum synjað í héraði

,,Það er ekki oft sem það gerist, en synjað var um gjaldþrotaskiptin í héraði og fór málið því upp í Hæstarétt, sem sneri úrskurði héraðsdóms við. Gjaldþrotaúrskurðurinn er því kveðinn upp af Hæstarétti, en það tók alveg heilt ár,“ segir Jón Auðunn.

,,Arion banki var nánast eini kröfuhafinn, en það sem tafði skiptin var að ágreiningur kom upp um forkaupsrétt á lóðum í Akralandinu. Það var sú kvöð á þessum lóðum að félag sem hafði átt þær lóðir áður átti forgangsrétt við öll eigendaskipti á lóðunum fram að því að fasteignirnar á þeim yrðu fokheldar.“

Það félag var aftur í eigu tveggja annarra félaga. Annað þeirra heitir Landey og er merkilegt nokk í eigu Arion banka að sögn Jón Auðuns.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .