Meðalgengi krónunnar gagnvart evru lækkaði um 7,2% á milli febrúar og mars. Það er mesta veiking á gengi krónunnar í einum mánuði frá apríl 2009. Veikingin er sú sjöunda mesta gagnvart evru í einum mánuði frá því evran var tekin upp.

Seðlabankinn keypti krónur fyrir tíu milljarða

Ein evra kostar 156 íslenskar krónur sem stendur. Sé horft á mars einan og sér féll gengi krónunnar um 11,9% gagnvart evru að því er kemur fram í greiningu Hagfræðideildar Landsbankans . Bent er á að Seðlabankinn hafi gripið inn í á gjaldeyrismarkaðinn í mars og keypt krónur fyrir 10,2 milljarða króna til að sporna gegn gengisfallinu. Seðlabankinn hefur um 900 milljarða króna gjaldeyrisvaraforða sem hann getur nýtt til að halda aftur af veikingu á gengi krónunnar. Veltan á gjaldeyrismarkaðnum jókst úr 10,5 milljörðum í 58 milljarða króna milli febrúar og mars.

Samkvæmt sviðsmyndum sem Seðlabankinn birti í mars átti bankinn von á 1,4%-1,5% verðbólgu á þessu ári. Þrátt fyrir veikingu á gengi krónunnar hefði eftirspurn í mörgum vöruflokkum dregist hratt saman, bæði hér á landi og erlendis. Þá væri von á minni launahækkunum en áður var gert ráð fyrir.

Ólíkt árinu 2008

Í greiningu Íslandsbanka sem birtist í gær er lækkunarhrinan borin saman við fyrri gengislækkanir fyrr á þessari öld. Bent er á að gengi krónunnar sé komið á svipaðan stað og það var í upphafi ferðamannasprengingarinnar við upphaf síðasta áratugar.

Að undanskildu árinu 2008, sem endaði með því að sett voru á gjaldeyrishöft hér á landi, sé veikingartakturinn kunnuglegur. A árinu 2008 veiktist gengi krónunnar um 45% gagnvart evru. Veikingin svipi fremur til gengisfalls áranna 2001, 2006 og 2018.

Þá er bent á að flest lönd heims séu að verða fyrir efnahagslegu áfalli. Á óvissu tímum á fjármálamörkuðum leiti fjárfestar oft í stærri gjaldmiðla. Þannig hafi norska krónan til að mynda veikst meira en sú íslenska sem og suður-afríska randið hafi fallið um 26% og brasilíski realinn um 27%.

Sjá má samantekt Íslandsbanka hér að neðan um hvernig gengi krónunnar hefur þróast síðustu mánuði miðað við fyrri gengislækkunarhrinur á þessari öld.

© Aðsend mynd (AÐSEND)