Icelandair hefur hafið viðræður við skuldabréfaeigendur vegna þess að hluti skulda félagsins er bundinn kvöðum um EBITDA hlutfall sem félagið segir nú að horfur séu á að verði brotin.

Vinnsla ársfjórðungsuppgjörs félagsins sem birt verður fyrir lok nóvembermánuðar bendir til að skilyrðin verði mögulega ekki lengur uppfyllt. Þau kveða á um að skuldir verði ekki meiri en sem nemur 3,5 sinnum hærra en EBITDA félagsins.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum þýðir það að ef EBITDA félagsins, að öðru óbreyttu, fer undir 98 milljónir dala stenst félagið ekki þessa lánaskilmála. Hefur félagið því hafið viðræður við fulltrúa skuldabréfaeigenda sem ráða yfir meira en helmingi af hinum útgefnu bréfum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu í morgun, en um er að ræða skuldabréf að nafnvirði 190 milljóna Bandaríkjadala, en vaxtaberandi skuldir félagsins nema í heildina 343 milljónum dala. Það er um 21,5 milljarðar íslenskra króna af 38,7 milljarða heildarvaxtaberandi skuldum félagsins, eða sem samsvarar 55,4% skulda félagsins.

Í samtali við Viðskiptablaðið í lok Ágúst sagði Bogi Nils Bogason starfandi forstjóri félagsins að félagið stæði vel fjárhagslega og margar leiðir væru til að leysa úr stöðunni. Eigið fé Icelandair næmi 530 milljónum dollara, eiginfjárhlutfall félagsins var 32% og félagið á 237 milljónir dollara í lausafé.

Bókfært verð varanlegra rekstrarfjármuna nam 673 milljónum dala og fyrirframgreiðslur inn á nýjar flugvélar í efnahagsreikningi námu 143 milljónum USD. Af heildarskuldum félagsins eru 121 milljón dala veðtryggðar.

Meðal þeirra möguleika sem Bogi Nils nefndi og ítrekaðar eru í tilkynninningunni nú er að endurgreiða lán, sem og gera breytingar á kjörum á meðan flugfélagið uppfylli ekki lánaskilmála sem gengju svo til baka þegar rekstur flugfélagsins vænkist. Þá kunni að vera að veð verði lögð fram gegn skuldum þar sem engin veð hafi verið lögð fram við þessi tilteknu lán.