Eftir athugun Umboðsmanns Alþingis ásamt fundum með Páli Winkel fangelsismálastjóra er niðurstaða umboðsmannsins að kvartanir þeirra Sigurðar Einarssonar, Ólafs Ólafssonar og Magnúsar Guðmundssonar yfir framgöngu Páls eiga við rök að styðjast.

Sagðir vilja neyta rauðvíns og sækja reiðnámskeið

Snýst málið meðal annars um tilsvör og upplýsingar sem hafðar voru eftir Páli í tengslum við beiðnir „frá ákveðnum föngum“ á Kvíabryggju um að fá að neyta rauðvíns og að fá að sækja reiðnámskeið.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá umboðsmanni sem segir að niðurstaðan í hnotskurn sé sú að Páli sé ljóst að hann hafi ekki gætt að réttindum þessara þriggja fanga á Kvíabryggju, meðal annars með því að fara ógætilega fram í fjölmiðlum. Hann hafi ekki greint rétt frá staðreyndum, hafði ekki fyrir því að leiðrétta rangfærslur auk þess að kasta rýrð á þessa tilteknu fanga með framgöngu sinni.

Friðhelgi einkalífs og þagnarskylda ekki virt

Telur umboðsmaður framgöngu og tilsvör Páls ekki vera í samræmi við lagareglur, en hann hefur beðist velvirðingar fyrir eigin hönd og stofnunarinnar í skriflegri yfirlýsingu. Umboðsmaðurinn hefur brugðist við með bréfi til Ólafar Nordal innanríkisráðherra þar sem ráðherra er minntur á eftirlitsheimildir ráðuneytisins og skyldur til að bregðast við með viðeigandi hætti í svona tilvikum.

"Upplýsingagjöf af þessu tagi er þannig háð bæði skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttar og ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalifs. Stjórnvöld verða að gæta að ákvæðum laga um þagnarskyldu, persónuvernd og meðferð persónuupplysinga. Tryggja verður einkalífshagsmuni þeirra, sem í hlut eiga, svo og aðra réttmæta hagsmuni borgaranna til þess að samskipti þeirra við stjórnvöld verði ekki borin á torg að ástæðurlausu," segir í bréfi umboðsmanns til þeirra Ólafs, Magnúsar og Sigurðar.