Kvika banki var rekinn með 1.590 milljón króna hagnaði á síðasta ári samanborið við 1.955 milljón króna hagnað árið 2016.

Hreinar vaxtatekjur námu 1.562 milljónum samanborið við 1.064 milljónum króna, sem er sagt skýrast af af bættum fjármögnunarkjörum Kviku.

Þóknanatekjur námu 3.033 milljónum króna á árinu 2017 og jukust um 5% á milli ára. Aðrar rekstrartekjur námu 635 milljónum króna miðað við 1.414 milljónir króna fyrir ári. Rekstrarkostnaður nam 3.670 milljónum króna á árinu 2017 og jókst um 14% á milli ára, en 328 milljónir skýrast af einskiptisliðum.

300 milljónir í sjóð vegna dómsmála

Töluverðar breytingar urðu á starfsemi Kviku á árinu. Félagið keypti verðbréfafyrirtækið Virðingu og Öldu sjóði á árinu og tók yfir fyrirtækjaráðgjöf Beringer Finance á Íslandi. Í ársreikningnum kemur fram að 2.560 milljónir króna hafi verið greiddar fyrir Virðingu. Þar af hafi 300 milljónir verið lagðar til hliðar í sjóð til að standa straum af dómsmálum sem tengist Virðingu. Þurfi bankinn að greiða bætur vegna dómsmálanna muni fyrstu 300 milljónirnar vera greiddar úr sjóðnum, en ella muni féð renna til fyrrum eigendur Virðingar. Þá voru 450 milljónir króna greiddar fyrir Öldu sjóð.

Í afkomutilkynningu frá Kviku kemur fram að hagnaður af grunnrekstri Kviku árið 2017 nam hafi numið 1.919 milljónum króna samanborið við 1.955 milljónir króna árið 2016. Einskiptisliðir vegna samruna og skipulagsbreytinga á árinu hafi numið 328 milljónum króna.

Ármann ánægður með árið

Ármann Þorvaldsson, sem tók við sem forstjóri Kviku í maí segir að vöxtur félagsins hafi setti mark sitt á síðari helming ársins. „Bankinn styrkti grunnstoðir sínar með kaupum á öllu hlutafé í Virðingu og Öldu sjóðum og er nú einn umsvifamesti aðilinn á eignastýringarmarkaði með um 263 milljarða í stýringu og tugi sjóða í rekstri. Í september tók bankinn einnig yfir fyrirtækjaráðgjöf Beringer Finance á Íslandi og er nú með eina öflugustu fyrirtækjaráðgjöf á Íslandi. Samþætting á starfsemi eininga sem þessara er flókið verkefni en hefur gengið mjög vel þökk sé því frábæra fólki sem starfar hjá bankanum,“ segir Ármann.

Eignir Kviku nema 76 milljörðum króna og er eiginfjárhlutfall bankans nemur 21,1% en lágmarskviðmið FME nemur 14,5%.