Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,39%, upp í 2.068,88 stig, í 1,7 milljarða króna viðskiptum í kauphöllinni í dag. Ef horft er á vikuna sem er að líða hefur lækkun Kviku banka verið sú mesta, eða um 6,2%, í 673 milljóna króna heildarviðskiptum en gengið fór úr 10,75 krónum við lok viðskipta á föstudag fyrir viku síðan í 10,08 krónur nú.

Næst mest lækkun var á gengi bréfa VÍS, eða um 3,9% viðskiptum sem námu ríflega 1,6 milljarði króna í heildina, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá var uppistaðan í því sala stjórnarmannsins Svanhildar Nönnu á öllum sínum 7,2% eignarhlut. Fór gengið í vikuunni úr 11,50 krónum í 11,05 krónur.

Gengi bréfa Icelandair hækkaði mest í vikunni, eða um 3,1% í 828 milljóna króna viðskiptum, úr 7,20 í 2,42 krónur. Næst mest hækkun var á gengi bréfa Skeljungs eða um 2,8% í 1,1 milljarða króna viðskiptum og fór gengi bréfanna úr 8,15 krónum í 8,38 krónur.

Icelandair hækkaði mest í dag

Þegar horft er á daginn í dag sést að gengi bréfa Icelandair hækkaði mest, eða um 1,23% í 127 milljóna króna viðskiptum, og endaði það í 7,42 krónum. Origo hækkaði næst mest, eða um 1,04% í rétt undir hálfrar milljóna króna viðskiptum, og fór það í 26,82 krónur.

Þriðja mesta hækkunin var á gengi bréfa Reita, eða um 0,83%, einnig í litlum viðskiptum eða fyrir 3 milljónir króna var lokagengi bréfa félagsins 73,00 krónur.

Gengi Icelandic Seafood lækkaði mest, eða um 1,31% en ekki heldur í teljandi viðskiptum eða fyrir 6 milljónir króna, en lokagengi bréfanna er 9,76 krónur. TM lækkaði næst mest eða um 1,23%, í 2 milljóna króna viðskiptum, og fór í 32,20 krónur. Loks nam lækkun Brim 1,0%, í 42 milljóna króna viðskiptum og fór gengi bréfanna í 39,60 krónur.

Langsamlega mestu viðskiptin voru með bréf Marel, Símans og Kviku, eða fyrir um 644 milljónir, 276 milljónir og 143 milljónir króna.