Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku banka, segir að bankinn brjóti samkeppnislög ef hann reynir að hafa áhrif á rekstur og sjóðastýringu GAMMA. Fréttablaðið greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag þá hefur VR hótað að taka fjármuni sem nema 4,2 milljörðum króna úr eignastýringu hjá Kviku, ef bankinn láti ekki Almenna leigufélagið hætta „grimmdarverkum og komi því þannig fyrir að leiga félagsins hækki ekki umfram verðlag og að leigjendum verði tryggt húsnæðisöryggi.“

VR sagði jafnframt að varla væri hægt að lýsa framferði Almenna leigufélagsins með öðrum orðum en „grimmd, taumlausri græðgi og mannvonsku.“

Í samtali við Fréttablaðið minnti Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku banka, á það að Samkeppniseftirlitið hafi enn ekki heimilað kaup Kviku á GAMMA.

„Við erum því ekki eigendur félagsins. Við vonumst auðvitað eftir því að kaupin gangi í gegn en þangað til höfum við ekkert með stjórn GAMMA að gera og okkur óheimilt að hafa áhrif á rekstur og sjóðastýringu félagsins. Það væri brot á samkeppnislögum,“ hefur Fréttablaðið eftir Ármanni.