Leifur B. Dagfinnsson, framleiðandi hjá True North kvikmyndafyrirtækinu segir styrkingu krónunnar helstu ástæðu þess að verulegur samdráttur hafi verið í ár í erlendum kvikmyndaverkefnum hér á landi. Líkir Leifur síðustu árum við gullöld, með lágu gengi og miklum áhuga á Íslandi að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag, og vísar í verkefni eins og The Secret Life of Walter Mitty.

Nú sé hins vegar hátt verðlag að valda því að Íslendingar eru að missa stór verkefni. Kallar Leifur því eftir því að auka þurfi stuðning stjórnvalda við kvikmyndagerð. Snorri Þórisson, forstjóri Pegasus, segir greinilegan samdrátt í gerð auglýsinga fyrir erlenda aðila, en hann bendir þó á að tískusveiflur valdi því að kvikmyndageirinn hér á landi gangi í bylgjum.