Kaldalón byggingar hf., nýtt fasteignafélag í eignastýringu hjá Kviku banka, hefur eignast meirihlutann í Vesturbugt eignarhaldsfélagi ehf. sem hyggst reisa 176 íbúðir og ásamt verslunarog þjónusturými í Vesturbugt við Reykjavíkurhöfn, milli slippsins og Mýrargötu 26. Ráðgert er að verkefnið í heild muni kosta um 10 milljarða króna. Kaldalón var stofnað á síðasta ári, en í lok október var 1,8 milljarða króna hlutafé lagt í félagið.

Stjórn Kaldalóns hefur heimild til að afla alls 4 milljarða króna í hlutafé.

Ásgeir Baldurs, forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga hjá eignastýringu Kviku, segir Kaldalón vera í eigu hóps einkafjárfesta. Hann gerir ráð fyrir að Kaldalón muni alls leggja 1-2 milljarða króna í hlutafé vegna framkvæmda við Vesturbugt og mun eignast 80% hlut í verkefninu.

Eiga lóðir undir 600 íbúðir

Kaldalón hefur alls rétt til að byggja um 600 íbúðir í Reykjavík, Kópavogi og Garðabæ. Félagið vinnur að framkvæmdum á Kársnesi með Íslenskri fjárfestingu og á auk þess íbúðalóðir Bakkabraut. Þá á félagið lóðir undir íbúðir í Urriðaholt og Nónholti í Garðabæ. „Við eigum ágætis lóðabanka og getum ráðið því hvernig við teljum skynsamlegt að fara í þessar framkvæmdir,“ segir Ásgeir.

Félagið Sundaborg ehf., sem stofnaði Vesturbugt eignarhaldsfélag, mun eiga 20% í verkefninu. Sundaborg er til helminga í eigu VSÓ ráðgjafar ehf. og BAB Capital sem er í eigu Bjarka A. Brynjarssonar, fyrrverandi forstjóra Marorku. Bjarki segir að verið sé að ljúka hönnunarvinnu og ráðgert sé að framkvæmdir hefjist síðar á þessu ári. „Þetta verður eflaust 3 til 4 ára ferli í heildina,” segir Bjarki. „Það verða verslanir á jarðhæð ásamt veitingahúsum, kaffihúsum og öðru slíku. Það verður mjög flott torg þarna, enda er þetta sérstaklega skemmtilegt svæði,” segir Bjarki.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .