Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, telur að íslenska hagkerfið hafi á undanförnum árum fengið að líða fyrir skort á skipulagi í ferðaþjónustunni. Hann segir að ýmsar leiðir séu færar til þess að hámarka hagkvæmni í ferðaþjónustu og viðrar hugmynd um kvótakverfi þar sem ákveðið er fyrirfram hversu margir ferðamenn megi koma til landsins. Þetta skrifar hann í aðsendri grein í vorhefti Vísbendingar .

„Í þeirri ládeyðu sem hér hefur verið undanfarið ár hefði verið hægt að koma skipulagi ferðaþjónustu svo að hún ofrísi ekki eins og gerðist árin fyrir COVID-19,“ segir Gylfi og nefnir í því samhengi að þegar hafði hægst á vexti ferðaþjónustunnar árið 2019, m.a. vegna hás innlends launakostnaðar sem hlutfalls af rekstrartekjum.

Hann segir að afleiðingar af „stjórnlausum“ vexti ferðaþjónustunnar séu flestum ljós, líkt og slit á vegum og lakari upplifun ferðamanna á vinsælustu ferðamannastöðunum. Einnig hafi gengi krónunnar hækkað vegna gjaldeyriskaupa ferðamanna sem minnkaði hagnað fyrirtækja í ferðaþjónustu og öðrum útflutningsgreinum, að sögn Gylfa.

Hann líkir ferðaþjónustunni við sjávarútveginn að því leyti að báðar greinarnar hafa neikvæð ytri áhrif þar sem einn ferðamaður til viðbótar eykur við mannþröng á vinsælum ferðmannastöðum líkt og einn togari til viðbótar minnkar afla fyrir aðra. Í sjávarútvegi hafi verið tekið upp kerfi framseljanlegra kvóta sem auki hagkvæmni í greininni „þótt tekjuskiptingaráhrif séu umdeild“, en ekkert slíkt kerfi sé að finna í ferðaþjónustunni.

Kvótakerfi eða veiðigjald fyrir ferðaþjónustuna

Gylfi, sem situr í peningastefnunefnd Seðlabankans, segir að ýmsar leiðir séu færar til að hámarka hagkvæmni í ferðaþjónustu en allar fela þær í sér að hver rekstraraðili taki tillit til þess ytra óhagræðis sem hann veldur öðrum fyrirtækjum í greinni og öðrum útflutningsgreinum. Gylfi nefnir þrjár leiðir, þar af er ein sem líkist kvótakerfinu og tvær sem svipa til veiðigjaldaleiðinni í sjávarútveginum.

Kvótakerfi í ferðaþjónustunni myndi felast í því að fyrirfram yrði ákveðið hversu margir ferðamenn megi koma til landsins á ári hverju og síðan gangi kvótar kaupum og sölum á milli flugfélaga. Ef nýtt flugfélag vill fljúga með ferðamenn til landsins þá þyrfti það að kaupa réttinn af þeim sem þegar fljúga með ferðamenn.

Hinar tvær leiðirnar líkjast veiðigjaldi að sögn Gylfa. Önnur þeirra felst í að leggja gistináttaskatt sem ríkissjóður gæti notað til að viðhalda vegum og byggja upp aðstöðu fyrir ferðamenn. Hin leiðin væri að leggja á lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli sem séu ákveðin með það í huga að takmarka fjölgun ferðamanna frá einu ári til annars.

„Ekki eru nein merki þess að verið sé að skipuleggja ferðaþjónustu á þennan hátt nú þegar fyrirsjáanleg er fjölgun ferðamanna eftir að búið er að bólusetja Íslendinga og þær þjóðir sem líklegastar eru til þess að vilja koma hingað.“

Æskilegt að styrkja aðrar greinar

Gylfi telur að til þess að skapa góð störf og viðhalda hagvexti sé æskilegt sé að byggja grunninn undir aðrar greinar sem búa til verðmæti í meiri mæli með mannauði og hugviti fólks heldur en sjávarútvegurinn eða ferðaþjónustan, þó þær séu uppspretta mikils hluta útflutningstekna Íslands. „Ekki svo að skilja að það gerist ekki í auðlindagreinunum tveimur en takmarkaðar auðlindir setja vexti þeirra skorður,“ segir Gylfi og vitnar í hagfræðingana David Ricardo og Alfred Marshall.

„Stofnanir efnahagslífsins skipta hér máli. Ef engin stjórn er á fjölgun ferðamanna má búast við því að þeim fjölgi aftur svo mikið að gengi krónunnar hækki og geri rekstur annarra atvinnugreina erfiðan. Þetta er hin svokallaða „hollenska veiki“ sem felur í sér að ein útflutningsgrein kæfi aðrar. Það er því mikilvægt að stjórnvöld skapi svigrúm fyrir aðrar greinar en sjávarútveg og ferðaþjónustu að vaxa og dafna.“

Gylfi segir erfitt að finna dæmi um að innlend stjórnvöld hafi tekið ákvarðanir um hvaða greinar skyldu fá skilyrði til vaxtar, að undanskilinni einkavæðingu bankanna árið 2003 en „þó var stofnanaumgjörð þeirra ófullkomin eins og oft hefur verið bent á“.

„Það er ekki nægilegt að auglýsa Ísland fyrir erlenda ferðamenn á Times Square í New York. Það þarf að sýna fyrirhyggju svo að mistök fortíðar verða ekki endurtekin. Einkarekstur og frjáls samkeppni krefst þess að regluverk sé fyrir hendi svo að fyrirtæki hámarki þjóðarhag,“ skrifar Gylfi að lokum.