Kynjakvarðinn GEMMAQ hefur verið birtur fyrir íslenskan hlutabréfamarkað en kvarðinn metur mánaðarlega fyrirtæki á alþjóðamörkuðum eftir kynjahlutföllum í stjórnum og framkvæmdastjórnum. Inn á Keldunni má nú sjá einkunnir samkvæmt skalanum fyrir öll fyrirtæki sem skráð eru á markað.

Séu einkunnir samkvæmt kvarðanum, sá er á skalanum einum til tíu, skoðaðar má sjá að meðaleinkunn félaganna á markaði er 6,74 þegar þetta er ritað. Tvö félög, tryggingafélögin VÍS og Sjóvá, skora hæst með níu en Reginn er þar á eftir með 8,5. Lestina reka Heimavellir og Skeljungur, bæði fá fjóra samkvæmt kvarðanum, en í sætinu fyrir ofan er Síminn með fimm.

Fjárfestar og þátttakendur á markaði gera í vaxandi mæli kröfu um að fjárfest sé með samfélagslega ábyrgum hætti og hafa ábyrgar fjárfestingar vaxið um 40% á alþjóðavísu á hverju ári frá árinu 2016. Í dag eru rúmlega þrjátíu þúsund milljarðar Bandaríkjadala í samfélagslega ábyrgri eignastýringu (e. Socially Responsible Investing), þar á meðal fjárfestingum sem taka mið af umhverfisþáttum, samfélagsþáttum og stjórnarháttum fyrirtækja,“ segir í tilkynningu frá Freyju Þórarinsdóttur, stofnanda GEMMAQ.

GEMMAQ er nýsköpunarfyrirtæki, nýlega styrkt af Tækniþróunarsjóði, sem vinnur að þróun vísitalna og matskerfis fyrir fjárfestingar með kynjagleraugum. Félagið stefnir að því að hjálpa fjárfestum að fjárfesta með samfélagslega ábyrgum hætti og fyrirtækjum að ná markmiðum er varða jafnrétti og jöfn kynjahlutföll í stjórnenda- og starfsmannahópi.

„Meðal samfélagslegra ábyrgra fjárfestinga hafa fjárfestingar með svokölluðum kynjagleraugum (e. Gender-lens investing) vaxið hvað mest. Hér er átt við fjárfestingar þar sem fjárfest er beint eða óbeint í gegnum fjárfestingarsjóði, í jafnréttissinnuðum fyrirtækjum, fyrirtækjum með jöfn kynjahlutföll í stjórnum og framkvæmdastjórnum eða félögum í eigu kvenna. Fjárfestar eru að láta þessi mál sig varða. Þessi tegund fjárfestinga hefur aukist úr því að vera hundrað þúsund Bandaríkjadalir á árinu 2014 í rúmlega tvo milljarða Bandaríkjadala á árinu 2018, samkvæmt rannsókn Wharton háskóla í Pennsylvaníu ríki um samfélagsáhrif,“ segir í tilkynningunni.