Ferðaþjónustufyrirtækið Kynnisferðir ehf. er metið á rúmlega 5 milljarða króna, ef marka má ársreikning Eldeyjar eignarhaldsfélags hf. Í ársreikningnum kemur fram að 27% hlutur Eldeyjar í Kynnisferðum sé metinn á 1,4 milljarða króna. Samkvæmt því er félagið metið á tæplega 5,2 milljarða króna.

Eldey eignarhaldsfélag var stofnað í lok árs 2020 í tengslum við kaup Kynnisferða ehf. á Eldey TLH hf.. Í gegnum samruna félaganna varð til eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Þegar Samkeppniseftirlitið samþykkti samrunann síðastliðið vor töldu samrunaaðilar að sameiginleg hlutdeild félaganna á markaðnum fyrir heild- og smásölu skipulagðra ferða á Íslandi vera á bilinu 5-10%.

Með samrunanum runnu dótturfélög Eldeyjar, Arcanum, Logakór og Sportköfunarskóli Íslands ehf., inn í sameinað félag auk 20% hlutar í Íslenskum heilsulindum. Sportköfunarskóli Íslands rekur köfunartengda ferðaþjónustu undir nafninu Dive en Logakór er fasteignafélag sem á meðal annars 51% hlut í óskiptu sameignarlandi sem nær frá jaðri Sólheimajökuls niður að sjó en þar má finna hið víðfræga flak Douglas DC-3 flugvélarinnar á Sólheimasandi.

Þannig var umsýsla Eldeyjar flutt frá Íslandssjóðum hf. til Íslenskrar fjárfestingar ehf. Félagið Eldey eignarhaldsfélag heldur utan um 27% eignarhlut í Kynnisferðum og 43% eignarhlut í Norðursiglingum, en síðarnefnda félagið var þó ekki hluti af samrunanum.

Björn Ragnarsson er framkvæmdastjóri Kynnisferða.