Vegna breytinga sem tóku gildi á bótakerfi ellilífeyrisþega nú um áramótin, sem fólu meðal annars í sér sameiningu bótaflokka, verða fjárhæðir orlofs- og desemberuppbóta til ellilífeyrisþega annars vegar og örorkuþega hins vegar ekki lengur þær sömu.

Hefur Þorsteinn Víglundsson, Félags- og jafnréttismálaráðherra gefið út reglugerð þess efnis samkvæmt frétt ráðuneytisins að óskert orlofsuppbót örorkulífeyrisþega verði 35.415 krónur, meðan ellilífeyrisþegar fá 34.500 krónur.

Desemberuppbót örorkulífeyrisþega verður svo 53.123 krónur, meðan ellilífeyrisþegar fá 51.750 krónur. Með breytingunni sem tók gildi um áramótin verða eingreiðslur ellilífeyrisþega föst fjárhæð, sem er óháð því hvort viðkomandi búi einn eða með öðrum. Hins vegar er gert ráð fyrir að fjárhæð eingreiðslunnar lækki um 2% vegna tekna ellilífeyrisþega en verði án frítekjumarks.

Eingreiðslurnar verða hér eftir sérstakur bótaflokkur, sem er föst fjárhæð, að upphæð 86.250 krónur óskert, sem skiptist þannig að 40% er greitt út í júlí og 60% í desember.