Innkoma Bjargs íbúðafélags á leigumarkaðinn hefur strax haft áhrif á leiguverð á markaðnum. Þannig hafa leigusalar á almennum markaði lækkað leiguverð til þess að halda í leigjendur, frekar en að missa þá.

Þetta segir Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs íbúðafélags, ASÍ og BSRB á Húsnæðisþingi sem nú stendur yfir á Hilton hótelinu. Bjarg er stofnað til að vera svokallað óhagnaðardrifið leigufélag.

Umsvifin á pari við nýjan Landspítala

Bjarg var stofnað á grunni laga um almennar íbúðir fyrir þremur árum. Hugmyndin með félaginu er að fólk í lægri tekjuþrepum gæti leigt öruggt húsnæði á viðunandi kjörum, samkvæmt ákveðnum reglum. Leiguverðið er að mati Björns gríðarleg kjarabót fyrir fólk, þar sem getur munað tugum þúsunda í hverjum mánuði á leiguverði hjá Bjargi og því sem gengur og gerist á almennum markaði.

„Þetta er ein mesta kjarabót sem þeir tekjuminni geta fengið,“ sagði Björn. Hann benti á að nú hafi þegar verið afhentar 152 íbúðir og að yfir 300 væru í byggingu. Von væri á enn fleiri íbúðum frá Bjargi á næstu árum og í rauninni væru umsvif félagsins allt að því á pari við nýjan Landspítala.

Innkoma Bjargs á markaðinn hefði hins vegar haft þegar haft óviðbúin en jákvæð áhrif fyrir leigjendur. „Þetta hefur strax haft áhrif á leiguverð á almennum markaði. Við sjáum að leigutakar sem voru búnir að fá íbúð hjá okkur koma og segja að leigusalinn hafi ekki viljað missa þá, svo þeir lækkuðu leiguna. Þessu gerðum við ekki ráð fyrir. Þetta er óvænt,“ segir Björn Traustason.

Húsnæðisþing 2019
Húsnæðisþing 2019
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Björn Traustason
Björn Traustason
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Húsnæðisþing 2019
Húsnæðisþing 2019
© Aðsend mynd (AÐSEND)