Olíufélagið N1, sem keypti nýlega verslunarkeðjuna Festi, og hyggst taka upp nafn félagsins, hefur sett fram tillögur um nýja starfskjarastefnu félagsins fyrir hluthafafund á þriðjudaginn.

Samkvæmt henni getur kaupauki forstjóra ekki lengur orðið jafngildi launa í hálft ár heldur einungis fyrir þrjá mánuði. Eins og fram hefur komið í Viðskiptablaðinu varð mikil umræða um laun forstjórans þegar hann fékk sex mánaða kaupauka á síðasta ári.

Aðrar breytingar fela í sér að mögulegar greiðslur við uppsögn og ráðningu forstjóra falla niður. Samkvæmt tilkynningu Margrétar Guðmundsdóttur stjórnarformanns hefur þó aldrei komið til slíkra greiðsla.

Jafnframt segir í yfirlýsingu stjórnarformanns að stjórnin telji mikilvægt að kaupaukagreiðslur séu hluti af ráðningarkjörum til að samtvinna hagsmuni hluthafa og stjórnenda og um það ríki sátt.

Með þessu vill stjórn N1 skapa fordæmi í íslensku atvinnulífi með því að sýna hógværð í breytilegum launagreiðslum til æðstu stjórnenda en telur jafnframt mikilvægt  að allir sýni í verki vilja til að ná sátt um launaþróun í landinu.  Með þessum breytingum telur stjórnin að komið sé til móts þá gagnrýni sem fram hefur komið og er rétt að undirstrika að um er að ræða heimild til greiðslu kaupauka, en ekki skyldu.