Hagfræðideild Landsbankans hefur lækkað verðmat bankans á hlutabréfum í N1 úr 138,1 krónu á hlut niður í 132,9 krónur. Verðmatið er aftur á móti 13,5% yfir dagslokunargengi olíufélagsins í Kauphöllinni sem var í gær 117 krónur á hlut og er 119 krónur miðað við stöðuna á markaði núna. Þetta kemur fram í frétt Vísis um málið.

Í verðmatinu segir meðal annars að samningsbundnar launahækkanir séu á næstunni og að N1 hafi ekki mikla möguleika þegar komi að hagræðingu í launakostnaði.

Einnig er bent á hin svokölluðu „Costco-áhrif“ eða aukna samkeppni í sumar vegna komu Costco, sem mun opna fjölorkustöð í Kauptúni í maí. Þar sem að N1 er ekki með stefnu um sama verð um land allt mun áhrifin vera mest á höfuðborgarsvæðinu að mati hagfræðideildar Landsbankans.

Hins vegar ráðleggja greinendurnir fjárfestum að kaupa bréf í N1 líkt og þeir gerðu í síðasta verðmati sem var gert á félaginu síðastliðinn nóvember. Þeir benda á að rekstrarhagnaður olíufélagsins fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) hafi verið 525 til 625 milljónum hærra en stjórnendur félagsins höfðu gert ráð fyrir.

Þegar þetta er ritað hefur gengi hlutabréfa N1 hækkað um 1,71% í 90 milljón króna viðskiptum í Kauphöll Íslands.