Í greiningu IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga, um evrópskan flugmarkað sem birt var á mánudaginn kemur fram að arðsemi og fargjöld evrópskra flugfélaga lækki milli ára. Samkvæmt greiningu IATA lækkaði rekstrarhagnaður (EBIT) evrópskra flugfélaga sem hlutfall af tekjum úr 7,9% árið 2017 í 6,2% árið 2018. Á öðrum ársfjórðungi þessa árs lækkaði hlutfallið úr 9,1% 2018 í 7,6%. Þá bendir IATA á að farmiðaverð að undanskildum hliðartekjum, á flugleiðum innan Evrópu hafi lækkað um 8,1% í júní síðastliðnum, um 6,6% í júlí og um 3% í ágúst. Lækkun farmiða á milli Evrópu og NorðurAmeríku, sem er sá markaður sem íslensk flugfélög treysta mjög á, nam um 3,3% í júní, 5,4% í júlí og 5,2% í ágúst milli ára.

Á kynningarfundi greiningardeildar Arion banka, sem haldinn var í lok mars taldi Elvar Ingi Möller, greinandi hjá bankanum, líklegt að samþjöppun væri fram undan á flugmarkaðnum. Markaðshlutdeild stærstu flugfélaga Evrópu væri umtalsvert lægri en í Bandaríkjunum á sama tíma og arðsemi í Evrópu væri lægri. Þá hefði sætaframboð evrópskra flugfélaga einnig vaxið mun hraðar en Bandarískra frá árinu 2005.

Greining IATA skýtur einnig stoðum undir þá kenningu. IATA bendir á að samanlagður hagnaður evrópskra flugfélaga sé meiri en hann var fyrir áratug. Hins vegar sé mest allur hagnaðurinn bundinn við fá stór flugfélög. Hjá flestum öðrum flugfélögum sé reksturinn þungur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .