Sumarið er að líða undir lok, haustið er farið að minna á sig og velta á mörkuðum hefur aukist umtalsvert. Í gær ruku markaðir upp eftir að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti stýrivaxtalækkun. Í dag lækkaði úrvalsvísitalan aftur á móti og það um 1,80% í tæpri 2,79 milljarða króna veltu.

Velta dagsins á skuldabréfamörkuðum nam 16 milljörðum króna og hækkaði aðalvísitala skuldabréfa um 0,28%. Óverðtryggði hluti skuldabréfavísitölunnar hækkaði um 0,71%, en verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,01%.

Einu úrvalsvísitölufélögin sem hækkuðu í dag, voru Reitir fasteignafélag og Síminn hf. Gengi Reita hækkaði um 0,75% í 87,55 krónur á hlut. Gengi Símans hækkaði um 0,64% í 3,16 krónur á hlut.

Marel lækkaði mest í viðskiptum dagsins, eða um 2,93% í 712 milljón króna viðskiptum og er gengið nú 248,50 krónur á hlut. Icelandair Group lækkaði um 2,89% í 26,90 krónur og Hagar um 2,17% í 49,50 krónur á hlut.

Önnur félög á aðalmarkaði, sem ekki eru í úrvalsvísitölunni, hækkuðu þó flest öll í dag. Mest hækkaði Nýherji, eða um sem nemur 5,09% í 7 milljón króna viðskiptum. Tryggingamiðstöðin hækkaði um 3,32% í 121 milljón króna viðskiptum. Hluturinn í Tryggingamiðstöðinni fæst nú á 23,35 krónur. Eik fasteignafélag hækkaði um 2,49% upp í 9,89 krónur á hlut, í tæplega 195 milljón króna viðskiptum.

Markaðsvísitala Gamma lækkaði um 0,2% og er lokagildi vísitölunnar nú 146.832. Skuldabréfavísitala sjóðstýringarfélagsins hækkaði um 0,24%, á meðan hlutabréfavísitala þess lækkaði um 1,23%.

LEQ kauphallarsjóður Landsbréfa, lækkaði um 1,72%.