Heildarviðskipti með hlutabréf á aðalmarkaði kauphallarinnar námu 1.864 milljónum króna og úrvalsvísitalan OMXI8 lækkaði um 1,02%.

Meirihluti félaga lækkaði, en flest þó tiltölulega hóflega, og ekkert verulega. Icelandair lækkaði mest allra félaga, um 1,66%, í 29 milljón króna viðskiptum, en þar á eftir komu Reitir með 1,55% lækkun í 201 milljón króna viðskiptum.

Aðeins þrjú félög hækkuðu, Sjóvá mest um 1,29% í 200 milljón króna viðskiptum, Reginn um 0,25% í 90 milljón króna viðskiptum og VÍS um 0,18% í 95 milljón króna viðskiptum.

Eins dreifðist veltan tiltölulega jafnt og var því hófleg hjá flestum félögum. Reitir og Sjóvá, bæði rétt um 200 milljónir, voru veltumest, en þar á eftir kom N1, sem lækkaði um 1,21% í 186 milljón króna viðskiptum. Viðskipti með önnur félög voru undir 150 milljónum króna.