„Efnahagslegur stöðugleiki er nánast óþekkt hugtak í íslenskri hagsögu. Kunnara stef er sveiflukennd þróun og þegar vel árar þá missum við tökin. Sömu hagstjórnarmistök hafa verið endurtekin hér á landi yfir áratugi,“ skrifar Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins í grein sem birtist í sumarhefti Þjóðmála .

Hún segir að hægt sé að læra af fyrri mistökum. Bendir Ásdís á að Norðurlandaþjóðir drógu lærdóm af sínum efnahagslægðum á níunda og tíunda áratugnum, þar sem hagstjórnin var tekin til gagngerrar endurskoðunar og komið var í veg fyrir að sömu mistökin væru endurtekin á ný. Því tekur hagfræðingurinn saman nokkra hluti sem hægt er að læra af og segir að ábyrg hagstjórn sé forsenda stöðugleika til langs tíma. „Þau skilaboð hafa sjaldan átt betur við en um þessar mundir,“ skrifar Ásdís.

1: Stjórnvöld verða að axla ábyrgð

Ásdís bendir á að á tímum góðæris er mikilvægt að hið opinbera dragi úr umsvifum sínum, og vinni þannig gegn spennu og búi í haginn fyrir það þegar hagvaxtarskeið taka. Hún telur það fagnaðarefni að nýverið hafi verið innleidd lög á Alþingi um fjármálareglu. Í lögunum felst viðleitni til þess að koma böndum á opinberan rekstur.

Hagfræðingurinn segir að eitt af því sem stjórnvöld hafa leyft sér í skjóli mikils hagvaxtar er að auka verulega opinber útgjöld. „Umsvif hins opinbera eru nánast hvergi meiri meðal þróaðra ríkja en á Íslandi skv. samanburði frá OECD. Fyrir hverjar 100 krónur sem verða til í hagkerfinu eru 42 krónum ráðstafað af hinu opinbera. Það er áhyggjuefni í ljósi þess að slík umsvif þarf eðli máls samkvæmt að fjármagna og hefur það verið gert með aukinni skattinnheimtu,“ skrifar Ásdís.

2: Launahækkanir umfram verðmætasköpun ógna verðstöðugleika

Hagsaga Íslands er mörkuð af ófriði á vinnumarkaði, viðvarandi deilum, verkföllum og að lokum launahækkunum, margföldum á við það sem viðgengst í nágrannaríkjum okkar að mati Ásdísar. Hún bendir á að á meðan hvort að Svíar deila um hvort að launahækkanir upp á 2% ógni efnahagslegum stöðugleika þá hafa launahækkanir hér heima verið hátt í 10%.

Hún telur mikinn vanda blasa við ef við höldum áfram á sömu braut. Ásdís telur eðlilegt að útflutningsgreinar kvarti undan samkeppnisstöðu sinni, sem versnar talsvert dag frá degi vegna styrkingar krónunnar sem bætist ofan á launahækkanir. „Styrkur útflutningsgreina er lykilþáttur í því að byggja upp sjálfbæran hagvöxt til langs tíma,“ skrifar hún.

Ásdís skrifar að ef Salek rennur út í sandinn þá er það alvarlega en margir átta sig á. „Við höfum í gegnum tíðina valið þá leið að hækka laun langt umfram það sem undirliggjandi hagstærðir gefa tilefni til og fyrir vikið uppskorið mikla verðbólgu, háa vexti og gengisóstöðugleika,“ skrifar hún. Ásdís telur að nú sé rétti tíminn fyrir Íslendinga að hverfa af fyrri braut og draga lærdóm af sögu okkar og vinnubrögðum annarra.

3: Svikalogn í skjóli hárra vaxta

Forstöðumaður efnahagssviðs SA varar við að í íslensku hávaxtaumhverfi skapast vandi að krónan styrkist enn frekar á sama tíma og útflutningsgreinar, grunnur heilbrigðrar gjaldeyrisöflunar, er að veikjast. „Svikalogn getur því auðveldlega skapast í slíku hávaxtaumhverfi,“ skrifar Ásdís.

Hún útskýrir að vaxtastig á Íslandi er aðeins ein breyta af mörgum í þeim flókna veruleika sem við búum í. Einnig skiptir raunvaxtamunur við útlönd máli. Hú segir að í síðustu uppsveiflu hafi Seðlabankinn verið fangi sinnar eigin vaxtastefnu þar sem vaxtahækkanir löðuðu til Íslands skammtímafjárfesta á sama tíma og heimili og fyrirtæki juku skuldsetningu sína í erlendum lágvaxta myntum.

„Þó aðrir armar hagstjórnar beri einna helst ábyrgð á miklum sveiflum í íslensku efnahagslífi þá er það ekki svo að Seðlabankinn sé yfir gagnrýni hafinn. Í 40 mánuði samfleytt hefur verðbólga mælst að meðaltali umtalsvert undir verðbólgumarkmiði á sama tíma og Seðlabankinn hefur lítið kvikað frá aðhaldssamri peningastefnu. Nú er svo komið að raunvaxtamunur við helstu viðskiptalönd er í kringum 4,5% sem svipar til þess sem var að mælast hér á þensluárunum síðustu,“ bendir Ásdís á.

„Annað væri að endurtaka fullreynd mistök fortíðar“

Ásdís segir að lokum að það sé vonandi að vinnumarkaði takist að innleiða breytt vinnubrögð í anda þess sem Norðurlöndin starfa eftir. Hún segir ábyrgðina sérstaklega mikla hjá aðilum vinnumarkaðarins. Hún segir mikla hættu sé á að við missum enn og aftur tökin á toppi hagsveiflunnar. „Okkur hefur reynst erfiðara en öðrum þjóðum þegar gangurinn er góður og það virðist gleymast að hagsveiflan fer bæði upp sem niður,“ skrifar Ásdís.

Að lokum bendir hún á það sem jákvætt er: Góða stöðu þjóðarbúsins - sparnaður heimila og fyrirtækja er í sögulegum hæðum, við eigum rúman gjaldeyrisvaraforða og skuldir þjóðarbúsins hafa sjaldan verið lægri. Að endingu skrifar Ásdís: „Það er vonandi að við getum spilað rétt úr þeirri sterkri stöðu sem nú er komin upp. Annað væri að endurtaka fullreynd mistök fortíðar.“