Evrópski Seðlabankinn (ECB) hefur ákveðið að afnema nær öll skilyrði sem voru á PEPP, 750 milljarða evra skuldabréfakaupum bankans, sem viðbragð við efnahagsáhrifum af útbreiðslu kórónuveirunnar. FT greinir frá.

Christine Lagarde, bankastjóri Evrópska seðlabankans, sagði á Twitter að enginn takmörk væru fyrir stuðningi bankans við evruna.

Meðal þeirra skilyrða sem felld voru niður er að seðlabankinn kaupi ekki meira en þriðjung af ríkisskuldabréfa hvers ríkis. Þakið var upphaflega sett á svo ekki væri hægt að saka bankann um að fjármagna beint einstaka þjóðríki sem gengur gegn lögum Evrópusambandsins.

Breytingin er túlkuð sem stuðningur við  berskjaldaðri ríkja evrusvæðisins á borð við Ítalíu. Krafa á ítölsk ríkisskuldabréf féll um 0,13 prósentustig eftir að greint var frá ákvörðuninni í 1,45%, sem er það lægsta í tvær vikur. Krafan fór yfir 3% í síðustu viku áður en tilkynnt var um PEPP aðgerðaráætlunina.

Þá mun ECB kaupa skuldabréf sem eru á gjalddaga eftir 70 daga eða meira en áður hafði Seðlabankinn sagst einungis ætla að kaupa skuldabréf sem eru á gjalddaga eftir meira en ár. FT bendir á að þetta hafi verulegar breytingar í för með sér.  ¾ af 150 milljarða evra skuldabréfaútgáfu þýska ríkisins á þessu ári eigi til að mynda að vera á gjalddaga innan árs.