Hlutafé nýs móðurfélags Skagans 3X hefur verið aukið um yfir 1,2 milljarða króna frá því að tilkynnt var um kaup þýska félagsins Baader á meirihluta í félaginu í október.

Gengið var frá kaupunum í lok febrúar og eignaðist Baader 60% hlut í félaginu, eins og Viðskiptablaðið greindi frá í júní. I.Á. Hönnun ehf., félag hjónanna Ingólfs Árnasonar, forstjóra Skagans 3X, og Guðrún Agnesar Sveinsdóttur, á áfram 40% hlut í Skaganum 3X en átti félagið að fullu fram að því.

Síðasta hlutafjáraukningin fór fram í júní þegar Baader og I.Á. Hönnun lögðu Skaganum 3X til nær 2,9 milljónir evra, um 420 milljónir króna. Áður höfðu félögin tvö lagt Skaganum 3X til tvær milljónir evra, tæplega 300 milljónir króna, í nýtt hlutafé í lok mars. Þá jók I.Á Hönnun hlutafé Skagans um 443 milljónir króna í lok árs 2020, að meirihluta með því að umbreyta kröfum upp á 283 milljónir króna á félög innan samstæðu Skagans 3X í hlutafé en 160 milljónir voru greiddar með reiðufé.

Því hefur hlutafé Skagans 3X verið aukið um í kringum 720 milljónir króna frá því að Baader eignaðist meirihluta í félaginu í febrúar og um yfir 1,2 milljarða króna frá lokum síðasta árs.

55% tekjusamdráttur var hjá samstæðu Skagans 3X á fyrstu átta mánuðum síðasta árs vegna faraldursins að því er fram kom í yfirlýsingu stjórnar með samstæðureikningi móðurfélagsins I.Á. Hönnunar, eins og Viðskiptablaðið greindi frá í mars.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .