Hagfræðideild Landsbankans birti nýja hagspá í morgun og reiknar deildin með að landsframleiðsla dragist saman um 0,5% í ár. Þetta er töluverð breyting frá síðustu spá bankans í október þegar hagvöxtur í ár var áætlaður 2,6%, en vegna áfalla í ferðaþjónustu og sjávarútvegi hefur spáin verðir færð niður.

„Reiknað er með að samdrátturinn vari stutt og á næsta ári megi gera ráð fyrir um 2,5% hagvexti, studdum af auknum fjárfestingum hins opinbera, íbúðafjárfestingu, einkaneyslu og hægfara viðsnúningi í ferðaþjónustu,” segir í tilkynningu frá bankanum.

Hagspáin er töluvert bjartsýnni en spá Arion banka frá því í apríl, sem gerir ráð fyrir 1,9% samdrætti í ár. Landsbankinn spáir þó meiri samdrætti en gert er í nýrri spá Hagstofunnar sem reiknar með að landsframleiðsla dragist saman 0,2%. Landsbankinn reiknar með að einkaneysla aukist um 1,8% núna í ár á meðan Arion-spáin kveður á um lítilsháttar samdrátt einkaneyslu.

Samkvæmt spá Landsbankans mun samneysla aukast um 3%. Reiknað er með að fjármunamyndun dragist saman um 5,7%, þar af dragist atvinnufjárfesting saman um 13,6%, en fjárfesting í íbúðarhúsnæði aukist um 5% og fjárfesting hins opinbera um 12%. Útflutningur vöru og þjónustu dregst saman um 5,5% í spánni og innflutningur dregst saman um 4%.

Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi verði 4,5% í ár en kaupmáttur launa muni aukast um 2,4%. Reiknað er með að verðbólga verði 3,3% og fasteignaverð hækki um 3,8%.

„Í ljósi viðsnúningsins í efnahagsþróuninni sem nú er framundan eykst hættan á að hagstjórnarmistök geti haft neikvæð áhrif á þá aðlögun sem þarf að eiga sér stað, hvort sem er í stjórn peningamála eða ríkisfjármála. Auk þess er mikil óvissa um þróun í fjölda ferðamanna á næstu árum sem getur haft mikil áhrif á þróun stærstu útflutningsatvinnugreinar þjóðarinnar. Í spánni er gert ráð fyrir u.þ.b. 14% fækkun ferðamanna á yfirstandandi ári en hóflegri fjölgun næstu tvö árin. Ef fækkun ferðamanna verður mun meiri en spáin gerir ráð fyrir gæti það dýpkað samdráttinn á þessu ári töluvert og hægt á efnahagsbatanum á komandi árum,” er skrifað í hagspá Landsbankans.

„Aðrir veigamiklir óvissuþættir hvað verðbólguþróun næstu ára áhrærir eru gengisþróun krónunnar. Sú óvissa tengist að vissu leyti þróuninni í ferðaþjónustu en einnig óvissu varðandi fjárfestingaflæði til og frá landinu. Þessu til viðbótar er töluverð óvissa varðandi verðþróun á húsnæði en það hefur verið og mun áfram verða ráðandi þáttur í verðbólguþróuninni á næstu misserum.

Að lokum er fjöldi erlendra óvissuþátta fyrir utan áhrifasvið íslenska hagkerfisins, svo sem efnahagshorfur í helstu viðskiptalöndum okkar, viðskiptadeilur Bandaríkjanna og Kína, mögulegar breytingar á olíuverði og verði á öðrum hrávörum sem getur haft veruleg áhrif á bæði verðbólgu- og efnahagshorfur hér á landi,” segir ennfremur í nýrri hagspá Landsbankans.