Landsbankinn skilaði 3,2 milljarða króna hagnaði á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 7,6 milljarða á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár var 4,7% samanborið við 11,7% á fyrsta fjórðungi 2021. Breytingin á milli ára skýrist einkum af 2,1 milljarðs hreins taps var af fjáreignum og fjárskuldum á gangvirði á fjórðungnum en til samanburðar var 2,4 milljarða hagnaður af þessum lið fyrir ári.

Hreinar vaxtatekjur námu 10,3 milljörðum og jukust um 19% á milli ára „aðallega vegna þess að efnahagsreikningur er stærri og ávöxtun lausafjár betri“ að því er segir í afkomutilkynningu bankans. Hreinar þjónustutekjur jukust einnig um 28,5% frá fyrra ári, einkum vegna vaxandi umsvifa í eignastýringu og markaðsviðskiptum, og 2,6 milljörðum.

Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði mældist 38,7% í lok tímabilsins, heldur meiri en á sama tíma í fyrra. Fram kemur að um 90% af nýjum íbúðalánum á fyrsta fjórðungi voru óverðtryggð og 58% lánanna voru með fasta vexti, í flestum tilvikum til þriggja ára.

„Dregið hefur úr vexti íbúðalána en útlán til fyrirtækja jukust um 20,7 milljarða króna, ef gengisáhrifa hefði ekki gætt.“

Rekstrarkostnaður bankans var 6,7 milljarðar króna á tímabilinu samanborið við 6,6 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Þar af voru laun og launatengd gjöld 3,8 milljarðar króna og standa í stað á milli tímabila. Kostnaður sem hlutfall af tekjum fyrstu þrjá mánuði ársins var 54,9%, samanborið við 45,8% á sama tímabili árið 2021.

Heildareignir Landsbankans jukust um 3,8 milljarða króna á tímabilinu og námu 1.734 milljörðum króna í lok mars. Eigið fé var 265,3 milljarðar og eiginfjárhlutfallið var því 24,3%.

„Bein áhrif af stríðsátökum í Úkraínu á áhættustöðu bankans eru lítil sem engin en óbein áhrif koma helst fram í breytingum á markaðsaðstæðum sem geta haft áhrif á viðskiptavini, aukinni verðbólgu á Íslandi og í helstu hagkerfum viðskiptalandanna, auknu flökti á fjármálamörkuðum og auknum líkum á netárásum,“ segir í tilkynningu bankans.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans:

„Uppgjörið endurspeglar góða byrjun á árinu hjá Landsbankanum og sýnir stöðugan rekstur og sterka markaðsstöðu bankans. Hreinar vaxtatekjur jukust um 19% og hreinar þjónustutekjur um 28% og er árangurinn einkum vegna aukinnar markaðshlutdeildar og góðs árangur í eignastýringu og markaðsviðskipum. Þá er áfram góð afkoma hjá Landsbréfum eftir frábært ársuppgjör félagsins. Sveiflur á hlutabréfamörkuðum hafa á hinn bóginn neikvæð áhrif á uppgjör fjórðungsins en á móti vega jákvæðar virðisbreytingar.

Góður rekstur og sterk staða gerir bankanum kleift að greiða 20,6 milljarða króna í arð á árinu en við arðgreiðsluna lækkar eiginfjárhlutfallið lítillega. Lausafjár- og eiginfjárstaða eru þó sem fyrr töluvert umfram kröfur eftirlitsaðila og er áfram gríðarsterk miðað við banka í Evrópu. Eftir vel heppnaðar skuldabréfaútgáfur fyrr á þessu ári er fjármögnunarþörf bankans á næstunni tiltölulega lítil, sem er mjög til bóta þegar farið er inn í enn eitt óvissutímabilið.

Vegna aukinna útlána til fyrirtækja jukust útlán á fyrsta fjórðungi um 37 milljarða króna, sé litið framhjá gengisáhrifum. Bankinn er með sterka stöðu á íbúðalánamarkaði og er sem fyrr umsvifamestur á byggingarmarkaði. Við sjáum greinilega að heimili sækja í að festa vexti á íbúðalánum sem er skiljanlegt í ljósi þeirrar óvissu sem nú ríkir um þróun vaxta og verðbólgu.

Við náðum miklum áfanga í febrúar þegar við byrjuðum að þinglýsa endurfjármögnuðum íbúðalánum rafrænt. Við rúllum lausninni út jafnt og þétt og stefnum á að ljúka innleiðingu í maí. Við erum stolt af þessum árangri og ánægð með hvað þetta er til mikillar einföldunar fyrir viðskiptavini sem endurfjármagna hjá bankanum. Við höfum átt mikið og gott samstarf við stjórnvöld um rafrænu þinglýsingarnar en lyfta þurfti grettistaki til að komast á þennan stað. Við bjóðum nú líka upp á verðbréfaviðskipti í appi sem er kærkomin nýjung fyrir viðskiptavini. Um 80% viðskipta með hlutabréf og sjóði Landsbréfa fara nú fram í netbanka eða appi. Það var svo hápunktur fyrsta fjórðungs að bankinn mældist í þriðja sinn efstur banka í Íslensku ánægjuvoginni. Landsbankinn hefur sterka stöðu í íslensku efnahagslífi og við munum áfram vinna ötullega að því að innleiða snjallari bankaþjónustu og treysta tengslin við viðskiptavini.

Við höfum lengi lagt mikla áherslu á sjálfbærni og það er afar ánægjulegt hversu mikil eftirspurn er eftir sjálfbærri fjármögnun bankans. Ellefu fyrirtæki og verkefni hafa nú hlotið sjálfbærnimerki Landsbankans sem er til marks um að þau uppfylla skilyrði í sjálfbærri fjármálaumgjörð bankans. Árangursríkasta leiðin fyrir banka til að stuðla að sjálfbærni er að ýta undir og styðja við aukna sjálfbærni hjá viðskiptavinum – og þar ætlum við áfram að skara fram úr.“