Landsbanki Íslands lækkar vexti frá og með mánudeginum 23. mars næstkomandi, og lækka breytilegir vextir íbúðalána um 0,40 prósentustig, sem er tíu punktum minna en 0,5 prósentustiga lækkun Seðlabankans á miðvikudag .

Seðlabankinn braut blað með tveim lækkunum á einni viku og má því segja að boltanum hafi verið komið á ríkið um hvernig bregðast eigi við efnahagslegum áhrifum útbreiðslu Covid 19 kórónaveirunnar, sem dreifst hefur um heimsbyggðina með tilheyrandi sóttkvíum og útgöngubönnum frá því að hún uppgötvaðist fyrst Wuhan borg í Kína

Þar með verða breytilegir vextir óverðtryggðra íbúðalána hjá bankanum 4,10%, og breytilegir vextir verðtryggðra íbúðalána verða 2,40%, en fastir óverðtryggðri íbúðalánavextir til 36 og 60 mánaða og fastir verðtryggðir íbúðalánavextir til 60 mánaða verða óbreyttir.

Lækkun breytilegu vextanna hjá Landsbankanum nú er sú sama og bankinn lækkaði eftir hálfs prósentustigs lækkun stýrivaxta Seðlabankans viku fyrr, svo breytilegir vextir íbúðalána hjá bankanum lækkuðu í heild um 0,8 prósentustig, en Seðlabankans um heilt prósentustig í báðum vaxtalækkununum . Með lækkun vaxta seðlabankans í síðustu viku gerðist það í fyrsta sinn að raunvextir ríkisskuldabréfa fóru undir núllið .

Þar með hafa báðir viðskiptabankarnir sem eru í ríkiseigu lækkað sína vexti eftir vaxtaákvarðanir Seðlabankans sem óvænt voru teknar innan viku hvor frá annarri. Íslandsbanki tilkynnti um það í gær að vextir bankans myndu einnig lækka eftir seinni vaxtaákvörðunina, en um 0,75 prósentustig í heildina, og tekur seinni ákvörðun bankans ekki gildi fyrr en um mánaðamótin.

Arion banki hefur ekki tilkynnt um vaxtaákvörðun eftir seinni lækkunina, en bankinn lækkaði breytilega íbúðarlánavexti sína um jafnmikið, eða 0,5 prósentustig, og nam lækkun Seðlabankans í síðustu viku , og tók hún gildi síðastliðinn mánudag.

Aðrir vextir hjá Landsbankanum lækka sem hér segir:

  • Óverðtryggðir og verðtryggðir kjörvextir lækka um 0,30 prósentustig.
  • Yfirdráttarvextir lækka um 0,30-0,50 prósentustig og breytilegir vextir á bíla- og tækjalánum lækka um 0,30 prósentustig.
  • Innlánsvextir almennra veltureikninga verða óbreyttir en aðrir algengir innlánsvextir standa í stað eða lækka um 0,10-0,50 prósentustig.