Landsbanki Íslands lækkar vexti frá og með morgundeginum , þar af breytilega vexti íbúðalána um 0,40%, sem er 10 punktum minna en Seðlabanki Íslands lækkaði stýrivexti sína um í morgun. Bankinn lækkaði vexti síðast 13. febrúar síðastliðinn, en þá var lækkun bankans jafnmikil og Seðlabankans og nokkuð meira en Íslandsbanki lækkaði sína um viku fyrr.

Eftir breytinguna nú verða breytilegir vextir óverðtryggra íbúðalána 4,50% og breytilegir vextir verðtryggðra íbúðalána verða 2,80%. Fastir óverðtryggðir íbúðalánavextir til 36 og 60 mánaða verða lækkaðir um 0,30 prósentustig. Fastir verðtryggðir íbúðalánavextir til 60 mánaða verða einnig lækkaðir um 0,30 prósentustig.

Óverðtryggðir og verðtryggðir kjörvextir lækka um 0,30 prósentustig. Yfirdráttarvextir lækka um 0,30-0,50 prósentustig og breytilegir vextir á bíla- og tækjalánum lækka um 0,30 prósentustig. Innlánsvextir almennra veltureikninga verða óbreyttir en aðrir algengir innlánsvextir lækka um 0,30-0,50 prósentustig.