Landsbankinn hefur ákveðið að leiðrétta lán þeirra 1.000 viðskiptavina sem tóku verðtryggð neytendalán, einkum íbúðalán, á meðan vísitala neysluverðs var rangt reiknuð af Hagstofunni. Í tilkynningu bankans kemur fram að þeir viðskiptavinir bankans sem yrðu fyrir tjóni vegna mistakanna þurfi ekki að hafa áhyggjur af hækkun á lánum sínum.

Landsbankinn hefur ákveðið að leiðrétta lán viðskiptavina sinna að eigin frumkvæði og án skyldu. Kostnaður bankans við leiðréttinguna nemur nokkrum tugum milljóna króna.

Í tilkynningu bankans segir:

Í nýlega birtum tölum Hagstofunnar hækkaði 12 mánaða verðbólga m.a. vegna mistaka í útreikningi Hagstofunnar. Þrátt fyrir að Hagstofan telji þessi mistök smávægileg þá er ljóst að þau munu valda tjóni hjá þeim sem tóku verðtryggð neytendalán hjá Landsbankanum á því tímabili sem reikningsskekkjan var til staðar. Mikill meirihluti þeirra eru fyrstu kaupendur sem tóku sitt fyrsta íbúðalán hjá bankanum á þessu tímabili. Um 1.000 viðskiptavinir Landsbankans tóku verðtryggð neytendalán á tímabilinu sem um ræðir, einkum verðtryggð íbúðalán. Vanmat á vísitölu neysluverðs, sem nú á að leiðrétta aftur í tímann, mun leiða það af sér að eftirstöðvar verðtryggðra lána sem tekin voru á tímabilinu hækka vegna vísitölubreytinga sem áttu sér stað fyrir lántöku. Landsbankinn hefur ákveðið að leiðrétta þessi mistök gagnvart viðskiptavinum sínum, sem ella hefðu orðið fyrir tjóni, að eigin frumkvæði og umfram skyldu. Kostnaðurinn við leiðréttinguna nemur nokkrum tugum milljóna og verða verðtryggð neytendalán, sem tekin voru á þessu tímabili, leiðrétt með innborgun á lánin sem nemur hækkuninni sem af mistökum Hagstofunnar leiðir.

Þeir viðskiptavinir sem um ræðir munu ekki verða áþreifanlega varir við leiðréttingu vísitölunnar svo sem í hækkaðri greiðslubyrði lána sinna. Landsbankinn mun á næstu vikum, reikna út og endurgreiða mismuninn inná höfuðstól lánanna. Fyrirséð er að einhvern tíma mun taka að framkvæma leiðréttinguna en viðskiptavinir fá tilkynningu um innborgunina þegar að henni kemur.