Landsbankinn hefur auglýst eftir arkitektum að nýjum höfuðstöðvum bankans við Austurhöfn, það er við tónlistar- og ráðstefnuhöllina Hörpu. Í auglýsingunni er tekið fram að arkitektarnir þurfi að hafa samband við bankann í síðasta lagi 18. september næstkomandi, en bankinn muni í kjölfarið velja 3 til 5 arkitektarstofur eða teymi arkitekta til að skila frumtillögum að hönnun hússins.

Er áætlaður skilafrestur að tillögum rúmir tveir mánuðir, en áætlað er að húsnæðið verði 14.500 fermetrar ofanjarðar, en 2.000 fermetrar í kjallara. Hyggst bankinn nýta 10 þúsund fermetra sjálfir, en á jarðhæð er gert ráð fyrir rými fyrir verslun og þjónustu, þar með talið mótttöku og afgreiðslu fyrir bankann.

Endanleg áætlun um tímasetningu framkvæmda mun þó ekki liggja fyrir fyrr en hönnun er lokið og niðustaða fengin úr útboði að því er Morgunblaðið hefur eftir Rúnari Pálmasyni, upplýsingafulltrúa bankans.

Húsin við Hafnarstræti 10, 12 og 14, sem eru í eigu bankans verða seld, en annað húsnæði höfuðstöðva bankans í miðbænum er leiguhúsnæði. Bankinn á einnig húsið við Austurstræti 11, það er gömlu höfuðstöðvarnar sem sagðar eru eiga menningarlegt og sögulegt gildi.

„Bankinn vill að það hús fái áfram að njóta sín til framtíðar en ekki liggur fyrir með hvað ahætti það verður,“ segir Rúnar.