Norræni fjárfestingarbankinn hefur undirritað tíu ára lánasamning við Landsnet hf., sem rekur flutningskerfið á Íslandi, vegna stækkunar og styrkingar á raforkukerfi landsins að því er kemur fram í tilkynningu frá norræna fjárfestingarbankanum.

Lánið er upp á 50 milljónir Bandaríkjadala og er veitt í því skyni að fjármagna raforkulínur ofanjarðar sem tengja jarðvarmavirkjunina að Þeistareykjum við svæðiskerfið og meginflutningskerfið, sem og við iðnaðarsvæðið á Bakka við Húsavík.

Í tilkynningunni segir jafnframt að tenging Þeistareykja við iðnaðarsvæðið á Bakka styðji við þróun orkufreks iðnaðar á Íslandi. „Slíkt hefði mikil og langvarandi áhrif á atvinnustarfsemi á svæðinu, einkum vegna 120 nýrra starfa sem myndu verða til á Húsavíkursvæðinu, sem telur um 2200 íbúa. Með tengingum við svæðiskerfið og meginkerfið fengju aðrir íslenskir notendur einnig aðgang að meiri endurnýjanlegri orku frá Þeistareykjum.“

Ennfremur að verkefnið muni auka áreiðanleika kerfisins á svæðum þar sem reglulega hafa orðið truflanir á raforkuafhendingu.