Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að Símanum bæri að greiða TSC ehf. bætur. Landsréttur lækkaði hins vegar bætur sem Símanum bæri að greiða úr 50 milljónum króna í 30 milljónir króna að viðbættum dráttarvöxtum auk málskostnaðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum.

Málið er 15 ára gamalt og snýst um samkeppni í veitingu fjarskiptaþjónustu á Snæfellsnesi. TSC var stofnað 2001 og hóf að bjóða Snæfellingum ADSL-netþjónustu, sem þá var ný af nálinni. Á vef félagsins er það sagt hafa vaxið hratt fyrstu árin.

Bauð Skjá einn frítt með netþjónustu
Árið 2004 keypti Síminn, þá Landssími Íslands, Íslenska sjónvarpsfélagið, sem rak sjónvarpsstöðina Skjá einn. Eitt af skilyrðum Samkeppniseftirlitsins (SKE) fyrir kaupunum var að neikvæðum áhrifum þeirra á samkeppni á fjarskipta- og sjónvarpsmarkaði yrði eytt.

Síminn hóf í kjölfarið að bjóða ADSL-tengingar í samkeppni við TSC á Snæfellsnesi, sem með fylgdi endurgjaldslaus aðgangur að efni Skjás eins. TSC taldi þetta brot á ofangreindum skilyrðum SKE, og á það féllust bæði Hæstiréttur og Samkeppniseftirlitið, sem sektaði Símann um 150 milljónir fyrir ólögmætar viðskiptahindranir. Síminn hafi svo áfrýjað málinu til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem lækkaði sektina í 50 milljónir króna vegna þess hve bágborin fjárhagsstaða Símans var á þeim tíma.

Brotin fólust meðal annars í að Síminn hafi ekki innheimt sérstakt gjald fyrir aðgang að Skjá einum, og að hindra aðgang TSC að flutningskerfi Símans vegna dreifingar á sjónvarpsefni stöðvarinnar. TSC höfðaði síðan skaðabótamál árið 2015, en samkvæmt heimasíðu félagsins lagði það upp laupana árið 2018. Félagið er þó enn til hjá fyrirtækjaskrá.

Í tilkynningu Símans segir að Landsréttur hafi verið sammála niðurstöðu héraðsdóms að Síminn hefði bakað TSC tjón með því að innheimta ekki sérstakt gjald fyrir aðgang að sjónvarpsstöðinni Skjá Einum sem var í opinni dagskrá. Upphafleg stefnufjárhæð hafi verið 108 milljónir króna að viðbættum kostnaði, vöxtum og dráttarvöxtum.