Landsvirkjun hagnaðist um 11,2 milljarða króna á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um 62% milli ára.

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði hjá Landsvirkjun hefur aldrei verið meiri. Þá setti Landsvirkjun einnig met á í orkusölu og -vinnslu á árinu.

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 153,4 milljónum dollara eða um 16 milljörðum króna en var 117,7 milljónir dollara árið áður og hækkar því um 30,4% milli ára.

Rekstrartekjur félagsins námu 483 milljónum dollara eða 50,2 milljörðum króna og hækka um 63 milljónir dollara milli ára.

EBITDA Landsvirkjunar nam 346 milljónum dollara sem samsvarar  36 milljörðum króna, en var 118 milljónir dollara fyrir ári

„Ytri aðstæður voru okkur einnig hagstæðar. Álverð, sem hefur áhrif á tekjur fyrirtækisins, hækkaði um 23% á milli ára. Rekstur flestra stærstu viðskiptavina okkar gekk vel á árinu og eftirspurn eftir raforku frá Landsvirkjun var áfram mikil. Nú síðast bættist í raforkusölu fyrirtækisins í síðustu viku, þegar við gerðum nýjan samning við Advania Data Centers,” bendir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar á í tilkynningu.

„Þetta sterka sjóðstreymi hefur staðið undir miklum fjárfestingum undanfarin misseri, en við höfum verið með tvær virkjanir í byggingu í fyrsta skipti í sögu fyrirtækisins, auk þess sem Búðarhálsstöð var gangsett árið 2014. Fyrsti áfangi jarðvarmavirkjunar á Þeistareykjum var gangsettur í nóvembermánuði, en annar áfangi verður gangsettur á vormánuðum 2018. Framkvæmdum við stækkun Búrfellsvirkjunar fer nú senn að ljúka, en stefnt er að gangsetningu um mitt ár 2018. Samtals koma 1,6 teravattstundir frá þessum þremur nýju aflstöðvum, sem nemur um 12% aukningu á vinnslugetu,” er jafnframt haft eftir Herði.