Landsvirkjun hagnaðist um 5,1 milljarð íslenskra króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samanborið við 1,1 milljarð á sama tímabili árið á undan. Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri fyrirtækisins.

Rekstrartekjur námu 16,4 milljörðum króna og lækka þær um 5,7% frá sama tímabili árið áður.
EBITDA nam 12,6 milljörðum króna. EBITDA hlutfall er 76,9% af tekjum, en var 74,6% á sama tímabili í fyrra.

Nettó skuldir lækkuðu um 10,2 milljarða frá áramótum og voru í lok mars 221,6 milljarðar króna.
Handbært fé frá rekstri nam 10,3 milljörðum króna sem er 3,5% hækkun frá sama tímabili árið áður.

„Rekstur Landsvirkjunar gekk áfram vel á fyrsta ársfjórðungi og einkenndist af sterku sjóðstreymi, en handbært fé frá rekstri var rúmlega 10 milljarðar króna (84 milljónir dollara). Var því einkum varið í að lækka skuldir, en á síðustu 12 mánuðum hafa nettó skuldir Landsvirkjunar lækkað um 29 milljarða króna (236 milljónir dollara). Tekjur lækkuðu um 5,7% á milli ára, einkum vegna 13% lækkunar á álverði, minni orkusölu og veikingar íslensku krónunnar, en á sama tíma lækkaði rekstrar- og viðhaldskostnaður um 14,5% frá fyrra ári,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.