Langhæstu skattekjurnar á íbúa eru í Reykjavík, eða um 146 þúsund krónur á árinu 2018. Á fimm árum, eða frá árinu 2014, hækkuðu þær um 37%. Frá þessu er greint á vef Félags atvinnurekanda en Morgunblaðið greindi frá samantekt FA í gær.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir í samtali við Morgunblaðið að athyglisverðast sé hvernig tekjur sveitarfélaganna, sama hvaða mælikvarði sé notaður, rjúki upp á þessu tímabili. „Á sama tíma hefur ekkert sambærilegt gerst í afkomu heimila og fyrirtækja sem auðveldar þeim að standa undir aukinni skattbyrði,“ segir Ólafur.

Lækkanir álagningarprósentu vega ekki upp á móti hækkunum fasteignamats

Á tímabilinu 2014-2018 hélt Reykjavíkurborg fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði í lögbundnum toppi, en lækkaði álagningarprósentu á íbúðarhúsnæði. Ýmis sveitarfélög hafa lækkað álagningarprósentu; oftar á íbúðarhúsnæði en sum á atvinnuhúsnæði einnig. Ólafur bendir á það í Morgunblaðinu að tölurnar sýni vel að þær lækkanir hafi ekki vegið upp á móti hækkunum fasteignamats, sem þýða að milljarðar króna renna sjálfkrafa frá fólki og fyrirtækjum í sveitarsjóðina.

Fasteignagjöldin endurspegli veitta þjónustu

„Okkur finnst þetta kerfi innheimtu fasteignaskatta lagalega vafasamt og að full ástæða sé til að horfa til nýrra leiða. Á sínum tíma var gert ráð fyrir að fasteignaskattur væri gjald fyrir veitta þjónustu en ekki eignaskattur. Betra væri að reikna út kostnaðinn við veitta þjónustu og deila honum síðan niður á fermetra. Það væri miklu gegnsærri og eðlilegri innheimta,“ segir Ólafur Stephensen.