Misræmi milli fjármálaáætlunar og fjárlaga annars vegar og þjóðhagsreikninga hins vegar, sem myndaðist í kjölfar endurflokkunar A- og B-hluta hins opinbera, kann að hafa áhrif á trúverðugleika um stjórn opinberra fjármála út á við. Slíkt kann síðan að hafa neikvæð áhrif á fjármögnunarkjör ríkissjóðs ef ekkert verður að gert þar sem matsfyrirtæki horfi til samræmis þar á milli við mat sitt. Af þessum sökum er unnið að því innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins (FJR) að gera breytingar á lögum um opinber fjármál til að tryggja að þetta ástand vari í sem stystan tíma.

Fjallað var um yfirstandandi endurflokkun hins opinbera í Viðskiptablaðinu um miðjan október á síðasta ári en lögum samkvæmt geta þeir fallið í þrjá flokka. Til A-hluta teljast verkefni og starfsemi fjármögnuð með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða opinberum framlögum. Í B-hluta má finna fyrirtæki og lánastofnanir sem eru undir stjórn ríkisins og rekin með ábyrgð þess og í C-hluta flokkast sameignar- eða hlutafélög, auk Seðlabanka Íslands, sem eru að meirihluta í eigu opinberra aðila.

Núgildandi lög um opinber fjármál eru frá árinu 2016 en með setningu þeirra var stefnt að því að færa framsetningu ríkisfjármála frá reikningsskilalegum grunni, svokölluðum IPSASstaðli, nær þeirri framsetningu sem þekkist í þjóðhagsreikningum. Reglulega tekur Hagstofan til skoðunar hvort rétt sé að draga stofnanir og ríkisbatterí í aðra dilka en þeir hafa fallið áður.

24 bættust í A-hluta

Slíkri yfirferð lauk á síðustu mánuðum ársins 2020. Niðurstaðan var sú að 24 aðilar teljast nú til hins opinbera, það er A-hluta ríkissjóðs eða A-hluta sveitarfélaga. Í þeim hópi má nefna Lindarhvol ehf., Náttúruhamfaratryggingu Íslands, Strætó bs. og Hörpu ohf. Mest áhrif höfðu hins vegar Menntasjóður námsmanna (MSN) og gamli Íbúðalánasjóður (ÍLS), sem eftir uppskiptingu heitir nú ÍL-sjóður og Húsnæðissjóður, en um 95% áhrifanna á hið opinbera má rekja til þeirra.

Endurflokkunin hefur áhrif bæði til fortíðar og framtíðar, frá 1998 til 2019, bæði á rekstur og efnahag hins opinbera. Áhrifin á afkomu eru smávægileg ef frá er skilið árið 2010 en þá lagði ríkissjóður ÍLS til 33 milljarða króna vegna bágborinnar fjárhagsstöðu. Það framlag nettast út samkvæmt nýju uppgjöri og batnar afkoman sem því nemur. Vaxtatekjur taka að sama skapi stökk, um 60 milljarða króna, sem rekja má til sjóðanna tveggja. Vaxtagjöld eru á móti áþekk svo vaxtajöfnuður helst nokkurn vegin á pari.

„Stærstu og veigamestu breytingarnar eru á efnahagshlið ríkissjóðs og um leið fyrir hið opinbera í heild. Með breytingunni jókst umfang eigna og skulda um nálægt 800 ma.kr. eða sem svarar til 40-50% aukningar frá því sem áður var. Með þessum breytingum eru heildarskuldir hins opinbera, að meðtöldum viðskiptaskuldum og lífeyrisskuldbindingum, nú komnar yfir 3.000 ma.kr. […] eða sem svarar til meira en 100% af [vergri landsframleiðslu (VLF)],“ segir í viðauka við þingályktunartillögu til fjármálaáætlunar 2022-2026.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .