Par sem kaupir sér 30 milljón króna íbúð og fær lánað fyrir því 25,5 milljónir til 25 ára gæti sparað sér 1,8 milljónir króna í vexti á fimm árum með því að fá að greiða lífeyrisiðgjald sitt inn á lánið fyrstu fimm ár lánstímans í stað þess að greiða það til lífeyrissjóðs. Í heildina myndu þau spara 13 milljónir króna í vaxtakostnað og eignast húsnæðið sitt að fullu 10 árum fyrr.

Þetta segir Kristófer Már Maronsson, nemi í hagfræði við Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands, í nýjum pistli á vefsíðunni Rómi . Hann segir það kaldhæðnislegt að ungt fólk greiði iðgjald til lífeyrissjóða, einungis til þess að lífeyrissjóðirnir geti lánað þeim það aftur á hærri vöxtum en sem nemur lágmarksávöxtun sjóðanna samkvæmt lögum.

Lífeyrissjóðirnir fá lánaðan pening frá okkur og lána okkur hann svo aftur á hærri vöxtum en við munum fá til baka frá lífeyrissjóðnum seinna meir. Skoðum smá dæmi um einstakling sem vill kaupa sér fasteign.

Þar sem allir verða að greiða í lífeyrissjóð er nægur peningur til svo hann geti fengið lán, hvort sem það er beint frá lífeyrissjóðnum eða í gegnum aðra fjármálastofnun sem lífeyrissjóðurinn hefur lánað pening. Í hverjum mánuði borgar hann svo í lífeyrissjóð sem fer í að lána öðrum pening. Það hljómar eins og frekar lélegur samningur,

segir Kristófer.

Hann segir að á sama tíma og ungt fólk sé neytt til að greiða í skyldusparnað í formi lífeyrissjóðsgreiðslna þurfi það að spara pening fyrir íbúð. Skyldusparnaðurinn sé of hár á sama tíma og flestir séu að skuldsetja sig, auk þess sem til standi að hækka iðgjöld enn . Margir ungir einstaklingar eigi erfitt með að fá húsnæðislán vegna þess að þeir komist ekki í gegnum greiðslumat, jafnvel þó að þeir borgi nú þegar hærri leigu en afborgun af láni yrði.

Þeir sem svo fá lán lenda í því að borga himinháa vexti fyrstu árin fari þeir óverðtryggðu leiðina eða ná ekkert að borga niður höfuðstólinn af láninu fari þeir þá verðtryggðu. Þessu þarf að breyta og ég er með hugmynd.

Kristófer leggur til að lífeyrisgreiðslur hvers mánaðar greiðist beint inn á húsnæðislán í fimm ár við fyrstu fasteignakaup. Það gæti haft mikil áhrif á getu einstaklinga til að eignast húsnæði. Slík aðgerð yrði til þess að auka eftirspurn eftir húsnæði og þar af leiðandi hækka húsnæðisverð, en því mætti mæta með öðrum leiðum.

„Það er ekki eins og peninginn vanti í lífeyrissjóðina og síðan má ekki gleyma því að fasteign er ákveðinn lífeyrir. Þetta getur haft mikil áhrif á mína framtíð, þína framtíð og framtíð barnanna þinna,“ segir Kristófer.