Breski vogunarsjóðurinn Lansdowne Partners hefur bætt við hlut sinn í Fjarskiptum, móðurfélagi Vodafone. Félagið á nú 11,16% í Fjarskiptum en átti fyrir viðskiptin rétt tæplega 9,4%. Sjóðurinn er því orðinn næst stærsti hluthafi Fjarskipta á eftir lífeyrissjóðnum Gildi sem á 11,91% og telst nú eiga virkan eignarhlut í félaginu.

Lansdowne hefur verið virkt á íslenska hlutabréfamarkaðnum en fyrir á sjóðurinn hluti í TM, VÍS, Símanum og N1.

Vogunarsjóðir hafa bætt verulega í hlut sinn í skráðum félögum hér á landi undanfarin tvö ár. Bandarískir og breskir fjárfestingasjóðir áttu rúmlega 13% af útgefnu hlutafé í tryggingarfélögum sem metinn var á um 10 milljarða króna í byrjun mánaðarins. Þá áttu þau um 12,5% í fjarskiptafélögunum Vodafone og Símanum og 13,9% í N1 og tæp 6% í fasteignafélögunum.