Breska fjárfestinagfélagið Lansdowne Partners hefur selt rúma 92 milljón hluti í tryggingafélaginu VÍS, sem miðað við dagslokagengi í dag er rétt um 1,1 milljarðs króna virði.

Félagið seldi einnig fyrr í dag rétt rúmlega milljón hluti í Festi, hvers gangvirði nemur 144 milljónum króna. Samanlagt hefur félagið því selt fyrir 1,25 milljarða króna.

Eftir viðskiptin á félagið 48 milljón hluti eða 2,5% í VÍS og 12,7 milljón hluti eða 3,9% í Festi. Bréf VÍS hækkuðu um 2,8% í viðskiptum dagsins í 263 milljón króna viðskiptum og enduðu daginn í 11,93 krónum á hlut, en bréf Festis stóðu í stað í 140 krónum á hlut í 410 milljón króna viðskiptum.

Tilkynnt var um bæði viðskiptin með flöggun til Kauphallarinnar vegna þess að eignarhlutur fór undir 5%, en í tilfelli VÍS ber uppgjör dagsins viðskiptin ekki með sér, þar sem tilkynningin kom eftir lokun markaða.