Fimmti ríkasti maður heims, Larry Ellison, hefur tekið sæti í stjórn rafbílaframleiðandans Telsa en greint var frá þessu í gær. Í frétt BBC kemur fram að ákvörðunin sé til þess að styrkja stjórn félagsins enn frekar sem er í samræmi við skuldbindingar forstjóra og stofanda Tesla, Elon Musk við bandaríska verðbréfaeftirlitið.

Musk þurfti að gangast undir ákveðnar skuldbindingar sem hluta af sátt við bandaríska verðbréfaeftirlitið eftir að Musk hafði sett færslu á Twitter þar sem hann sagðist ætla að taka Tesla af hlutabréfamarkaði og hann væri kominn með fjármögnun til þess. Þurfti Musk meðal annars að láta af starfi stjórnarformanns Tesla í kjölfarið en gegnir þó enn starfi forstjóra.

Þá tók Kathleen Wilson-Thompson, mannauðsstjóri lyfjafyrirtækisins Walgreens Boots Alliance, einnig sæti í stjórn Tesla.

Larry Ellison sem er stofandi og forstjóri Oracle, þriðja stærsta hugbúnaðarfyrirtæki heims á nú þegar um 3 milljónir hluta í Telsla en markaðsvirði hlutanna er um milljarður dollara en þeim Larry og Elon er vel til vina.