Þrátt fyrir að Bandaríkin séu það markaðssvæði sem Lauf Forks einblínir mest á, þá hyggst fyrirtækið einnig auka umsvif sín í Evrópu.

„Sölustjórinn okkar er nýlega kominn heim frá Belgíu, en þar var hann að funda með mjög stórum dreifingaraðila um að hann sjái um þennan lykilmarkað í Evrópu, sem eru Beneluxlöndin og Þýskaland, fyrir okkar hönd," segir Benedikt Skúlason, framkvæmdastjóri og annar af stofnendum Lauf Forks. „Þetta er dreifingaraðili sem við höfum nú þegar verið í samstarfi við, en þeir hafa séð um að koma göfflunum okkar á markað í Evrópu," segir Guðberg Björnsson, yfirhönnuður og hinn stofnandi Lauf Forks.

„Þetta gerist miklu hraðar ef farið er í gegnum dreifingaraðila. Það gerir okkur kleift að einblína á okkar aðalmarkað, sem er Bandaríkin og þeir sjá þá svolítið um Evrópuhlutann. En við fylgjumst auðvitað vel með og pössum að dreifingaraðilinn átti sig á einkennum okkar vörumerkis," segir Benedikt, en að hans sögn er stefnt á að þetta verkefni verði komið í gang inn tveggja mánaða.

Vilja ekki missa af „malarhjólalestinni"

Guðberg segir að „malarhjólalestin" sé að fara af stað í Evrópu og að það væri synd að missa af því að taka þátt í fyrstu bylgju hennar. Þeir reikna þó ekki með því að þróunin í Evrópu verði sú sama og í Bandaríkjunum, þar sem malarhjól virðast vera að útrýma götuhjólum. Mikil hefð sé fyrir götuhjólum í Evrópu. Að sögn Benedikts liggja tækifærin í Evrópu frekar á mörkum götuhjóla og malarhjóla.

Lauf mun núna á næstunni bæta við nýju hjóli í vöruframboð sitt, sem er hjól sem fellur undir þennan fyrrnefnda flokk milli götuhjóla og malarhjóla. Hjólið hefur hlotið nafnið Lauf Anywhere og segir Benedikt að hjólið henti þeim vel sem vilji kaupa hjól sem virkar vel á möl jafnt sem götu. Leitast hafi verið eftir að hafa nafngiftina eins gagnsæja og kostur var á til að leggja áherslu á að þetta hjól henti öllum, líka fólki sem hefur minni kunnáttu á hjólreiðum en þeir allra færustu. Guðberg segir að ef líkja megi True Grit hjólinu við jeppa, þá megi líkja þessari nýju tegund við jeppling.

Frumkvöðlastyrkir ómetanlegir

Lauf Forks hefur verið í örum vexti undanfarin ár og greindi Viðskiptablaðið meðal annars frá því síðasta sumar að nýr söluaðili True Grit hjólanna bætist að jafnaði við í hverri viku í Bandaríkjunum. Í dag eru þeir rúmlega 50 talsins. Benedikt og Guðberg segja að íslenskir sjóðir sem hjálpi frumkvöðlum að fjármagna hugmyndir sínar í formi styrkja, séu ómetanlegir.

„Ég get ekki annað en minnst á hve þakklát við erum fyrir að Tækniþróunarsjóður hafi gert okkur þetta allt kleift. Við fengum myndarlegan 70 milljóna króna styrk til tveggja ára frá þeim fyrir tveimur árum. Styrkurinn er sannarlega búinn að gera kraftaverk fyrir okkur, og ég held það sé núorðið enginn vafi á að við munum endurgjalda hann margfalt til samfélagsins," segir Benedikt.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .