Íslenska hjólafyrirtækið Lauf Forks hf. hefur lokið 270 milljón króna hlutafjáraukningu. Í tilkynningu þar sem greint er frá þessu segir að lögð hafi verið áhersla á að styrkja hluthafahóp Lauf til framtíðar og því komi uppistaða aukningarinnar frá nýjum hluthöfum. Heildarvirði Lauf sé eftir viðskiptin um 3 milljarðar króna. KPMG var ráðgjafi Lauf í ferlinu.

Tekjur Lauf hafa u.þ.b. tvöfaldast árlega undanfarin 3 ár. Í tilkynningunni er greint frá því að velta félagsins fyrir árið 2021 verði tæpur milljarður króna og félagið muni skila hagnaði.

Sjá einnig: Hjóla inn á Bandaríkjamarkað

„Nýtt hlutafé verður m.a. nýtt í mikla markaðssókn á nýju ári. Með nýjar einkaleyfavarðar vörur í farvatninu og nýja starfsstöð í Virginíu stefnir félagið á áframhaldandi vöxt næstu árin. Tæplega 80% af sölu Lauf eru á Bandaríkjamarkaði.

Lauf Forks hf. var stofnað árið 2011 og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir framsæknar nýjungar í hjólageiranum. Þessar nýjungar hafa m.a. valdið straumhvörfum í því hvernig fólk um allan heim skilgreinir malarhjólreiðar, en malarhjól eru í dag orðinn einn stærsti flokkur hjóla á heimsvísu,“ segir í tilkynningu.