Leiða má líkur að því að launakostnaður hér á landi sé hæstur innan OECD ríkjanna ef tekið er mið af tölum frá Hagstofunni. Þetta er meðal þess sem fram kemur í samantekt frá Viðskiptaráði Íslands þar sem farið er yfir 10 atriði sem snúa að rekstri fyrirtækja á Íslandi.

Viðskiptaráð lýsir yfir áhyggjum af skorti á skilningi á forsendum sem komandi kjaraviðræður eigi að byggjast á.

1.) Góð sjö ár í rekstir íslenskra fyrirtækja

Síðastliðin sjö ár hafa verið afar hagfelld fyrir íslensk fyrirtæki en óvíst er að svo muni verða á næstunni.

„Hin raunverulega verðmætasköpun í atvinnulífinu, eða virðisaukinn sem skiptist milli launa og fjármagns, jókst til að mynda um 60% frá 2010 til 2017. Slík aukning í virðisauka hefur gefið rými til launahækkana, arðgreiðslna og aukins fjármagnskostnaðar sem er vel yfir því sem almennt gengur og gerist."

2.) Jaðardæmi ekki lýsandi fyrir heildina

Þó svo að síðustu ár hafi almennt séð gengið vel hjá íslenskum fyrirtækjum þá á það ekki við um þau öll.

„Sumar atvinnugreinar skila mun meiri hagnaði um þessar mundir en áður á meðan helmingur atvinnugreina skila hagnaði sem var 6% eða minna af tekjum. Margar atvinnugreinar sveiflast meira en aðrar og aðrar skila almennt minni hagnaði en aðrar. Því má gera sér í hugarlund þann breytileika sem finna má innan atvinnuvegaflokka og á aðra mælikvarða en hagnað í hlutfalli við tekjur, sem spila inn í getu fyrirtækja til að takast á við auknar launagreiðslur."

3.) Hátt launahlutfall vísbending um takmarkað svigrúm

Það er ekki aðeins verðmætasköpunin sem hefur að segja í samhengi við komandi kjaraviðræður heldur einnig launahlutfallið.

„Launahlutfallið er nú komið um 5 prósentustigum yfir langtímameðaltal sem bendir sterklega til þess að svigrúm til launahækkana umfram það sem nemur verðmætasköpun í hagkerfinu sé lítið eða ekkert. Hlutfallið hefur þó farið hærra, t.d. fyrir hagkerfið í heild á árunum 2006–2007, en þá voru launin í raun að hluta til fengin að láni erlendis þar sem Ísland var með mikinn viðskiptahalla við útlönd á þeim tíma."

4.) Ísland með hæsta launahlutfall innan OECD

„Önnur og ekki síður sterk vísbending um að svigrúm til launahækkana sé lítið er launahlutfallið í alþjóðlegum samanburði. Árið 2016 var launahlutfallið á Íslandi það næsthæsta meðal OECD ríkja. OECD hefur ekki enn birt tölur fyrir Ísland árið 2017 en ef miðað er við tölurnar frá Hagstofunni fyrir árið 2017 eru allar líkur á því að það sé orðið það hæsta meðal OECD ríkja."

5.) Arðgreiðslur jafneðlilegar og vaxtagreiðslur

„Oft virðist þó sem í umræðu um arðgreiðslur fyrirtækja að þær séu af hinu neikvæða. Sé horft til þróunar arðgreiðslna og annarra sambærilegra úttekta úr rekstri hafa þær aukist talsvert á síðustu árum samfara aukinni verðmætasköpun."

6.) Hægir á vexti í tækni og hugverkaiðnaði

Miklar launahækkanir eru taldar bitna mest á greinum í tækni og hugverkaiðnaði.

„Hlutfall launakostnaðar af verðmætasköpun í þessum greinum hefur þó haldist nokkuð stöðugt en það er mjög hátt eða um 71%. Það gefur því augaleið að miklar launahækkanir bitna hvað harðast á þessum atvinnugreinum."

7.) Ferðaþjónustan gefur eftir

Í fyrra urðu vatnaskil í ferðaþjónustu sem hefur upplifað fordæmalausan vöxt undanfarin ár.

„Virðisaukningin í helstu greinum ferðaþjónustu árið 2017 var 7%, eða sú minnsta síðan árið 2011. Í ofanálag hækkaði launahlutfallið í 72% og hefur ekki verið hærra frá árinu 2008."

8.) Fólk almennt svartsýnna

Stjórnendur í atvinnulífinu sem og almenningur eru nú almennt svartsýnni á stöðuna og framtíðarhorfur í efnahagslífinu.

„Væntingavísitalan hefur ágætis spágildi um einkaneyslu heimila og fjárfestingar fyrirtækja svo að tölurnar bera með sér að í besta falli sé hægur vöxtur á þeim þáttum framundan."

„Má þá sérstaklega benda á nýjustu spárnar frá viðskiptabönkunum þremur og Seðlabankanum sem benda til innan við 3% hagvaxtar á næsta ári. Í slíku umhverfi er sígandi lukka best og ljóst að minni vöxtur verður á því sem er til skiptanna en verið hefur síðustu ár."

9.) Ósjálfbærar launahækkanir leiða til verðbólgu

„Þótt samband verðbólgu og launa sé margslungið og sumpart flókið þá er það engu að síður til staðar í einhverri mynd. Í það minnsta er augljóst að ef fyrirtæki stendur skyndilega frammi fyrir mikilli hækkun kostnaðar, hvort sem það er vegna launa eða annars, þurfa fyrirtæki að bregðast við með einum eða öðrum hætti, fyrr eða síðar. Viðbragðið á Íslandi og víðar hefur oftar en ekki verið hækkun verðlags."

10.) Of miklar hækkanir kalla á erlenda skuldsetningu

Eigi of miklar launahækkanir að skila raunverulegri kjarabót kallar það á erlenda skuldsetningu.

„Stundum er því haldið fram að með hærri tekjum geti bæði launafólk og fyrirtæki notið góðs af hærri launum vegna meiri umsvifa í hagkerfinu. Það er fjarri lagi að málið sé svo einfalt því aukning verðmætasköpunar þarf að eiga sér stað til þess að einföld hækkun launa geti skapað betri lífskjör."

Samantektina í heild sinni má lesa hér .

Örskýringu má nálgast hér .