Launavísitalan breyttist nánast ekkert á milli júní og júlí líkt og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá. Hún hefur alls hækkað um 7,2% frá júlí 2016. Það hefur hægt talsvert á hækkunartakti vísitölunnar frá því að hann náði hámarki í 13,4%. Vegna lítillar verðbólgu á Íslandi heldur kaupmáttur launa áfram að aukast og var meiri en nokkru sinni fyrr í júlí, eða 5,3% meiri en fyrir ári síðar að því er kemur í nýrri Hagsjá Landsbankans .

Þrátt fyrir það að dregið hafi úr launahækkunartaki þá hafa launahækkanir hér á Íslandi verið mun meiri en í þeim löndum sem við eigum í mestum viðskiptum við segir í greiningu bankans. „Þegar styrkingu krónunnar á síðustu misserum er bætt við gefur augaleið að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja hefur rýrnað verulega,“ segir í Hagsjánni. Að mati greiningardeildar Landsbankans ætti það að vera öllum ljóst að útflutningsgreinar okkar á Íslandi eru í verulega erfiðri stöðu hvað launaþróun varðar.

Greiningaraðilar benda á að íslenska launavísitalan, mæld í evrum, hækkaði um 60% frá 2012 til 2016. En á sama tíma hafi laun í helstu viðskiptalöndum okkar hækkað, að hámarki, um 6 til 8% og voru nær óbreytt í Svíþjóð og lækkuðu um ríflega 10% í Noregi. Raungengi krónu miðað við laun hefur alls hækkað um 66,5% yfir tímabilið 2012 fram á fyrsta ársfjórðung þessa árs.

Mega vart við frekari launahækkunum

Að mati Landsbankans eru  fyrirtæki sem eru í útflutningi, hvort sem það er útflutningur á vöru eða þjónustu, búa við skerta samkeppnisstöðu og mega vart við miklum launahækkunum á næstu misserum ef samkeppni þeirra á ekki að versna enn meira.

Þegar litið er til síðasta ár er ljóst að launavísitalan hafi hækkað um 7,8% frá maí 2016 til maí 2017. Laun á almenna markaðnum hækkuðu um 7,4% á milli maí 2016 og maí 2017. Á sama tíma hækkuðu laun á opinbera markaðnum alls um 8,4%, sem og 8,4% hjá starfsmönnum ríkisins og 8,3% hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Almenn samningsbundin hækkun um 4,5% varð á almenna markaðnum 1. maí 2017. Sú næsta kemur ekki fyrr en í maí á næsta ári, verði samningum ekki sagt upp.

Minnst hækkun hjá stjórnendum

Hækkun einstakra starfsstétta frá maí 2016 til maí 2017 var á bilinu 6 til 9%. Laun þjónustu- sölu- og afgreiðslufólks hækkuðu mest, eða um 9,4%. Minnsta hækkunin var hins vegar hjá stjórnendum, 6,4%.

Launabreytingar í atvinnugreinum milli maí 2016 og maí 2017 voru á bilinu 4,7 til 8,6%. Hækkunin var mest í flutningum og geymslu 8,6%, og var einnig yfir 8% í byggingarstarfsemi og verslun. Laun í veitustarfsemi hækkuðu minnst, eða um 4,7%, sem er langtum minna en hækkun launavísitölunnar á sama tímabili.